Meiri vöxtur varð í bandarísku efnahagslífi á öðrum ársfjórðungi þessa árs en gert hafði verið ráð fyrir og hefur hann ekki verið meiri síðan á síðari hluta árs 2011. Þetta kemur fram í tilkynningu frá viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna í dag.
Fram kemur í frétt AFP að hagvöxtur á tímabilinu hafi verið 4,6% en spár höfðu gert ráð fyrir 4,2% vexti. Að sögn ráðuneytisins má einkum rekja aukinn hagvöxt til meiri fjárfestinga í viðskiptalífinu en reiknað hafi verið með. Ekki síst í framleiðslu- og útflutningsgreinum.