„Menn hafa of einfalda mynd af flæði peninga í nútímahagkerfinu,“ segir Ásgeir Brynjar Torfason, lektor við Háskóla Íslands. Hann er þeirrar skoðunar að hefðbundin hagstjórnartæki seðlabankanna hafi ekki skilað tilskildum árangri við að stýra magni peninga í umferð.
Ásgeir lauk nýlega doktorsprófi frá Gautaborgarháskóla þar sem hann fjallaði í ritgerð sinni um sjóðstreymi í bönkum. Sjóðstreymi er heiti á breytingu á handbæru fé félags á ákveðnu rekstrartímabili og lýsir streymi peninga í eða úr sjóði félagsins.
Könnun Ásgeirs á ársreikningum átta stærstu banka Norðurlanda leiddi í ljós að fjórir stærstu bankar Svíþjóðar voru með neikvætt sjóðstreymi frá rekstri í átta ár af tíu. „Þrátt fyrir það gátu þeir alltaf fjármagnað sig og enginn gerði athugasemdir við þetta. Af öllum þeim bankamönnum sem ég tók viðtöl við áttu allir nema einn í vandræðum með að útskýra þetta neikvæða sjóðstreymi,“ segir Ásgeir í samtali um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.