Hallinn nálgast 12 milljarða

Ljósmynd/YANJUN

11,7 milljarða króna halli var á vöruskiptunum við útlönd fyrstu átta mánuði ársins, samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands.

Í ágústmánuði voru fluttar út vörur fyrir 47,2 milljarða króna og inn fyrir 42,8 milljarða króna fob (45,9 milljarða króna cif). Vöruskiptin í ágúst, reiknuð á fob verðmæti, voru því hagstæð um tæpa 4,5 milljarða króna. Í ágúst 2013 voru vöruskiptin hagstæð um 6,3 milljarða króna á gengi hvors árs.

Fyrstu átta mánuði ársins 2014 voru fluttar út vörur fyrir 363,7 milljarða króna en inn fyrir 375,4 milljarða króna fob (402,5 milljarða króna cif). Vöruskiptin við útlönd voru því óhagstæð um 11,7 milljarða króna, reiknað á fob verðmæti, en á sama tíma árið áður voru þau hagstæð um 23,5 milljarða á gengi hvors árs. Vöruskiptajöfnuðurinn var því  35,1 milljarði króna lakari en á sama tíma árið áður.
  
Mest flutt út af iðnaðarvöru 
Fyrstu átta mánuði ársins 2014 var verðmæti vöruútflutnings 35,9 milljörðum eða 9% lægra á gengi hvors árs en á sama tíma árið áður. Iðnaðarvörur voru 52,9% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 7,7% lægra en á sama tíma árið áður, aðallega vegna áls. Sjávarafurðir voru 42,1% alls útflutnings og var verðmæti þeirra 11,8% lægra en á sama tíma árið áður.


Fyrstu átta mánuði ársins 2014 var verðmæti vöruinnflutnings 0,7 milljörðum eða 0,2% lægra á gengi hvors árs en á sama tíma árið áður, aðallega vegna hrá- og rekstrarvöru, eldsneytis og flugvéla. Á móti kom aukinn innflutningur á fólksbílum og skipum.

Uppfærsla á brúartöflu
Í ljós hafa komið villur í fyrri árum í brúartöflu sem birt var í tengslum við útgáfu þjónustuviðskipta við útlönd 1. september síðastliðinn. Brúartaflan hefur nú verið uppfærð með réttum upplýsingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK