Skuggabankastarfsemi hefur aukist verulega á heimsvísu og sér í lagi í Bandaríkjunum og stefnir það stöðugleika fjármálakerfisins í hættu. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Það telst skuggabankastarfsemi þegar hefðbundin bankastarfsemi fer fram utan hins eftirlitsskylda viðskiptabankakerfis. Skuggabanki er fjármálastofnun sem sinnir nokkurs konar fjármálalegri milligöngu, það er miðlun fjármagns frá fjármagnseiganda til lántaka. Hann lýtur hins vegar ekki eins ströngum lögum, reglum og eftirliti og bankar.
Talið er að um sextíu þúsund milljarðar Bandaríkjadala séu í umferð í skuggabankakerfinu. Starfsemin getur verið lögmæt og þarf ekki að vera óæskileg en fellur almennt ekki undir eftirlit og almenn lög um fyrirtæki. Eru þetta til dæmis fjárfestingarfélög og lífeyrissjóðir.
Í skýrslu AGS kemur fram að starfsemin hefur vaxið gífurlega á síðastliðnum sex árum og að það megi rekja til þess að eftirlit með hefðbundinni bankastarfsemi hefur verið hert eftir fjármálakreppuna. Þetta getur skapað töluverða kerfishættu þar sem starfsemin er jafnan fjármögnuð með ótryggðu skammtímafjármagni sem getur þurrkast upp án nokkurs fyrirvara.
Í Bandaríkjunum meðhöndla skuggabankar um tvöfalt meira fjármagn en hefðbundnir bankar og á evrusvæðinu er hlutfallið um 60 prósent.
Nauðsynlegt er að fylgjast náið með þróuninni að sögn AGS
Fréttaskýring mbl um skuggabankastarfsemi: Skuggabankar geta skapað kerfisáhættu