Aukin hvatning til kvenna

Stjórn Ungra athafnakvenna. Lilja Gylfadóttir er fyrir miðju.
Stjórn Ungra athafnakvenna. Lilja Gylfadóttir er fyrir miðju. Mynd/Snorri Björnsson

„Því miður er ennþá þörf á þessum félagsskap þó að það sé árið 2014. Mér finnst fáar konur í stjórnunarstöðum endurspegla þessa þörf en einnig eiga konur það til að halda aftur af sér,“ segir Lilja Gylfadóttir, formaður Ungra athafnakvenna, nýstofnaðrar nefndar sem starfar undir Félagi kvenna í atvinnulífinu. Er ætlun nefndarinnar að styrkja stöðu og framtíð ungra kvenna sem stjórnenda og þátttakenda í atvinnulífinu.

Lilja bendir á að fjöldi rannsókna hafi sýnt það að konur sækjast síður eftir þeim tækifærum sem bjóðast. „Konur eiga það til að þurfa auka hvatningu og við trúum að við séum að veita það sem til þarf með tilkomu Ungra athafnakvenna,“ segir hún.

Stækka tengslanetið

Nefndin er ætluð konum sem eru í námi eða nýlega komnar út á vinnumarkaðinn og er miðað við að þær séu á aldrinum tuttugu til þrjátíu ára. Stofnfundur nefndarinnar var haldinn þann 30. september og mættu þar um 160 konur. Að sögn Lilju hafa um sextíu þegar skráð sig.

Aðspurð hvað konur geta grætt á nefndarstarfinu segir hún mikinn ávinning vera þar af. „Bæði stækkarðu tengslanetið þitt gríðarlega auk þess sem viðburðirnir sem við stöndum að eru mjög flottir og áhugaverðir,“ segir hún og bætir við hópurinn sé til þess fallinn að veita konum innblástur og hvetja þær áfram.

Breyta hugarfarinu

„Mín skoðun er sú að með því að hvetja og móta konur þegar þær eru í námi eða nýlega komnar út á vinnumarkaðinn þá sækjast þær frekar eftir þeim tækifærum sem bjóðast,“ segir Lilja. „Það getur verið erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og með því er ég að segja að við þurfum að tækla vandamálið áður en það verður til. Konur verða að átta sig á því að þær eiga að sækjast eftir sömu tækifærum og karlmaðurinn sem þær vinna með eða sitja hjá í skólanum,“ segir hún. „Ef við förum með það hugarfar inn á vinnumarkaðinn er ég viss um að við sjáum mikla fjölgun kvenna á öllum sviðum í atvinnulífinu, í stjórnunarstöðum og fjölmiðlum sem er auðvitað best fyrir samfélagið í heild.“

Lilja segir viðtökurnar við nefndinni hafa verið frábærar. „Við í stjórninni erum mjög þakklátar öllum þeim áhuga og jákvæðu viðbrögðum sem við höfum fengið. Það er augljóst að það var löngu orðið tímabært að stofna Ungar athafnakonur,“ segir hún.

Námskeið í samningatækni og fjármálalæsi

Nefndin mun að minnsta kosti efna til fimm viðburða og verður sá næsti á eftir stofnfundinum heimsókn í Bláa lónið. Eftir áramót verður síðan efnt til námskeiðs í samningatækni, heimsóknar í Nova og viðburðar sem tengist fjármálum og fjármálalæsi. „Þetta eru þeir viðburðir sem við erum búnar að negla niður en höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð eftir stofnfundinn frá nokkrum aðilum sem myndu langa að vera í samstarfi við okkur svo það er aldrei að vita nema það bætist eitthvað við.“

Fjölmenni var á stofnfundi Ungra athafnakvenna.
Fjölmenni var á stofnfundi Ungra athafnakvenna. Mynd/Snorri Björnsson
Lilja Gylfadóttir á stofnfundinum.
Lilja Gylfadóttir á stofnfundinum. Mynd/Snorri Björnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK