Búist er við að Evrópusambandið hafni fjárlögum Frakklands vegna næsta árs en þetta yrði í fyrsta sinn sem virkilega reynir á nýjar valdheimildir sambandsins til þess að hafna fjárlögum einstakra ríkja þess. Þetta kemur fram í frétt Wall Street Journal.
Fjármálaráðherra Frakklands, Michel Sapin, lýsti því yfir í síðasta mánuði að líklega yrði fjárlagahalli landsins 4,3% á næsta ári sem er langt umfram hámarks leyfilegan fjárlagahalla samkvæmt reglum evrusvæðisins en hann er 3%. Fram kemur í fréttinni að fyrir vikið sé líklegt að embættismenn ESB hafni fjárlögunum og geri frönskum stjórnvöldum að endurskoða þau. Átök kunni því að vera í uppsiglingu á milli ráðamanna í Frakklandi og í Brussel.
Ennfremur segir í fréttinni að hugsanlegt sé að það sama verði raunin í tilfelli Ítalíu þar sem einnig sé útlit fyrir að fjárlagahalli landsins verði umfram leyfilegan halla á evrusvæðinu. Bæði franskir og ítalskir ráðamenn hafa sagt út í hött að krefjast frekari aðhaldsaðgerða í ríkjunum tveimur á sama tíma og horfur í efnahagsmálum þeirra fari versnandi.