Sala á nýjum fólksbílum jókst um 58 prósent í september frá sama mánuði í fyrra Voru nýskráðir fólksbílar 553 á móti 350 í sama mánuði 2013 og er aukningin því um 203 bílar.
Samtals hafa verið skráðir 8.169 fólksbílar á fyrstu 9 mánuðum ársins og er það 30,7 prósent aukning frá fyrra ári. Fjöldi bílaleigubíla af heildar-nýskráningu er 4.279 það sem af er árinu eða 52 prósent. Þetta kemur fram hjá Bílgreinasambandinu.
Í september voru nýskráðir 26 bílaleigubílar eða 4,7 prósent af heildar-nýskráningum mánaðarins.
Nýskráningar jukust einnig í Bretlandi og var september söluhæsti mánuður síðustu tíu ára. Eftirspurn eftir nýjum númeraplötum hefur ekki verið meiri síðan árið 2004. Nýskráningar jukust um 5,6 prósent í síðasta mánuði í 425.861 bifreið samanborið við september 2013. Hafa þær ekki verið fleiri síðan árið 2004. Að sögn framkvæmdastjóra bílgreinasambands Bretlands ber þetta merki um áframhaldandi vöxt á markaðnum. Hann sagði neytendur vera hrifna af nýjum, spennandi og sparneytnum bílum.