Nýkjörin ríkisstjórn Svíþjóðar hyggst hækka skatta á þá tekjuhæstu og lækka skatta á eftirlaun í staðinn. Fjármálaráðherra Svíþjóðar, Magdalena Andersson, tilkynnti þetta í dag.
Hún sagði það ósanngjarnt að ellilífeyrisþegar greiddu hærri skatta en almennir launþegar. „Þannig að við ætlum að lækka þessa skatta, sérstaklega á þá með lágan lífeyri,“ sagði hún. Andersson var áður ríkisskattstjóri í Svíþjóð.
Skattahækkunin verður í formi lækkunar á endurgreiðslu og er ætlað að skila um 2,4 milljörðum sænskra króna, eða um fjörutíu milljörðum íslenskra króna, í ríkiskassann. Frumvarpið á þó eftir að fara í gegnum þingið en verði það samþykkt kemur það til með að hafa áhrif á skattgreiðslur þúsunda Svía sem hafa yfir 600 þúsund sænskar krónur, eða 10 milljónir íslenskar, í laun á ári.
Samkvæmt mati stjórnvalda munu þeir sem eru með yfir 25 milljónir króna í árslaun greiða aukalega um 430 þúsund krónur í skatt. Ríkisstjórnarflokkarnir eru hins vegar ekki með meirihluta á þingi og þurfa því stuðning úr stjórnarandstöðunni til þess að koma frumvarpinu í gegn.
Fyrri frétt mbl: Sérstök staða í sænskri pólitík