Íbúðalánasjóður selur 400 íbúðir

Íbúðalánasjóður.
Íbúðalánasjóður. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íbúðalánasjóður hefur ákveðið að setja 400 íbúðir úr eignasafni sjóðsins í sérstakt söluferli. Formlegt söluferli hefst þann 17. október og þá geta væntanlegir kaupendur nálgast ítarlega upplýsingaskýrslu um söluferlið og eignirnar á heimasíðu Íbúðalánasjóðs, segir í fréttatilkynningu frá sjóðnum.

Íbúðalánasjóður mun bjóða íbúðirnar til sölu í sjö eignasöfnum, en tilboðsgjafar geta boðið í eitt eða fleiri söfn. Þær 400 íbúðir sem boðnar verða til sölu í eignasöfnunum sjö eru staðsettar á Austurlandi, Norðurlandi, Vesturlandi, Suðurlandi, Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Fasteignamat þeirra er um 6,5 milljarðar króna.

Sjóðurinn gerir þá kröfu til þeirra sem bjóða í eignirnar að þeir geri grein fyrir því hvernig þeir ætla að viðhalda útleigu íbúðanna og að þeir hafi trausta getu til fjármögnunar kaupanna, segir í tilkynningunni.

Flestar þegar í útleigu

Á síðustu árum hefur Íbúðalánasjóður eignast margar íbúðir. Í tilkynningu segir að sjóðurinn hafi lagt mikla áherslu á að tryggja búsetuöryggi þeirra einstaklinga og fjölskyldna sem í þeim búa þegar hann hefur eignast þær.

Flestar þeirra eigna sem fara í söluferli að þessu sinni eru nú þegar í útleigu og margar þeirra voru byggðar sérstaklega sem leiguíbúðir. Við söluna er lagt til grundvallar að þær verði einungis seldar til aðila sem ætla að reka þær áfram til útleigu. Á þennan hátt vill Íbúðalánasjóður stuðla að uppbyggingu leigumarkaðar á Íslandi með húsnæðisöryggi þeirra sem búa í eignunum að leiðarljósi.

Áhugasömum kaupendum verður boðið til kynningarfundar þriðjudaginn 14. október nk. kl. 9 í húsnæði Capacent að Ármúla 13 í Reykjavík. Þeir sem hyggjast sækja fundinn verða að skrá sig til þátttöku fyrir lok mánudagsins 13. október. Skráning fer fram á heimasíðu Íbúðalánasjóðs undir tenglinum „Sala sjö fasteignasafna – skráning á kynningarfund“. Á fundinum verður farið yfir söluferlið og fasteignasöfnunum lýst nánar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka