Góður hagvöxtur á næstu árum

Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, kynnti fyrir stundu nýja þjóðhagsspá á Fjármálaþingi Íslandsbanka. Í spánni kemur fram að hagvaxtarhorfur hér á landi séu heilt á litið góðar, en gert er ráð fyrir 3,1% hagvexti í ár, 3,2% á næsta ári og 2,9% árið 2016. Samhliða þessu muni hagur fyrirtækja og heimila halda áfram að batna.

Kröftugur vöxtur í einkaneyslu

Í spánni er gert ráð fyrir að einkaneyslan muni vaxa nokkuð myndarlega í ár. Sé tekið mið af fyrstu átta mánuðum ársins hefur kortavelta erlendis aukist nokkuð hratt sem og veltan innanlands. Þá hefur orðið umtalsverð aukning á innflutningi neysluvara og nýskráningu bifreiða auk þess sem fasteignaverð hefur haldið áfram að hækka og utanlandsferðum Íslendinga hefur fjölgað.

Greiningin gerir ráð fyrir að einkaneyslan muni að raungildi vaxa um 4,5% á þessu ári, 3,8% á því næsta og 2,8% 2016. Þá mun kaupmáttur launa vaxa um 3,6% á þessu ári og 2,3% á næsta ári. Að auki gerir Greiningin ráð fyrir að atvinnuástandið haldi áfram að batna og að atvinnuleysi verði komið niður í 3,3% á árinu 2016 samanborið við 3,7% í ár.

Aukin fjárfesting

Greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að hlutfall fjárfestingar af vergri landsframleiðslu muni í fyrsta sinn frá árinu 2008 ná 20% árið 2016, en það er meðaltal OECD ríka undanfarin ár. Er það afar jákvætt enda leggur fjárfesting grunninn að aukinni framleiðslu og þar með hagvexti þegar fram í sækir.

Reiknað er með myndarlegum vexti í fjárfestingum atvinnuveganna á spátímanum. Hvað orkufreka iðnaðarfjárfestingu varðar er helst horft til fjögurra verkefna. Eru það kísilmálmverksmiðjur PCC, Thorsil og United Silicon auk sólarkísilverksmiðju Silicor. Þá er einnig gert ráð fyrir umtalsverðum vexti í almennri fjárfestingu atvinnuvega, svo sem atvinnufarartækja, mannvirkja og annars búnaðar til atvinnurekstrar.

Innflutningur vex hratt

Í Þjóðhagsspánni kemur fram að innflutningur muni vaxa hraðar en útflutningur á tímabilinu og mun því draga jafnt og þétt úr afgangi af vöru- og þjónustujöfnuði.

Batnandi viðskiptakjör hjálpa þó nokkuð til við að draga úr áhrifum þessa, en útlit er fyrir að sá bati sem þegar hefur orðið á viðskiptakjörum landsins gagnvart útlöndum haldi áfram næstu misserin með verðhækkun helstu útflutningsvara og frekari lækkun olíuverðs.

Gert er ráð fyrir útflutningur sjávarafurða dragist saman um 5,5% í ár vegna aflabrests og þá er ekki gert ráð fyrir að álútflutningur muni aukast að ráði á spátímanum. Almennt er búist við að efnahagslíf í helstu viðskiptalöndum okkar rétti enn frekar úr kútnum á næsta ári. Þó hafa horfur versnað undanfarið á evrusvæðinu, og gerir OECD nú aðeins ráð fyrir 1,1% hagvexti þar árið 2015, en horfur eru talsvert betri í öðrum helstu viðskiptalöndum.

Viðkvæmur stöðugleiki á gjaldeyrismarkaði

Mikil óvissa er um þróun krónunnar næstu misseri í ljósi greiðslujafnaðarvanda þjóðarbúsins, óvissu um uppgjör búa föllnu fjármálafyrirtækjanna og áhrif fyrirhugaðra tilslakana fjármagnshafta. Þetta er einn stærsti óvissuþáttur greiningarinnar.

Spáin byggir á því að þær tilslakanir sem gerðar verði á fjármagnshöftum á spátímabilinu verði framkvæmdar þannig að þær muni ekki raska stöðugleikanum á gjaldeyrismarkaðinum. Spáin byggir þannig á því að gengi krónunnar verði nálægt núverandi gildi út spátímabilið.

Verðbólga og stýrivextir þokast upp á við 

Verðbólga hefur mælst undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans nær allt þetta ár. Útlit er fyrir að verðbólgan haldist á svipuðum slóðum út árið. Á næsta ári er gert ráð fyrir að verðbólga aukist nokkuð frá yfirstandandi ári, og enn muni bæta í verðbólgutaktinn árið 2016.

Aukinn gangur í efnahagslífinu mun væntanlega endurspeglast í hraðari hækkun launa og áframhaldandi raunhækkun fasteignaverðs. Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur haldið stýrivöxtum bankans óbreyttum frá nóvember 2012.

Raunvextir bankans hafa þó hækkað nokkuð á tímabilinu samhliða hjaðnandi verðbólgu. Reiknað er með að peningastefnunefndin haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum fram á seinni helming næsta árs en bregðist þá við vaxandi verðbólgu og verðbólguþrýstingi með hækkun stýrivaxta. Spáir Greiningin því að peningastefnunefndin verði komin með stýrivexti bankans í 6,25% í árslok 2015 og í 6,75% í lok árs 2016, þ.e. í lok spátímans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK