Hvort sem Ísland fær aðild að fríverslunar- og fjárfestingarsamningi á milli ESB og Bandaríkjanna (TTIP) eða ekki, mun samningurinn, verði hann samþykktur, hafa áhrif á Íslandi.
Þetta segir Tim Bennet, framkvæmdastjóri Trans-Atlantic Business Council (TABC), hagsmunasamtaka alþjóðafyrirtækja með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum og Evrópu. Tim hefur tekið virkan þátt í viðræðum um samninginn. Hann greindi frá gangi viðræðnanna og helstu atriðum samningsins á hádegisfundi Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins í vikunni.
Tim kvaðst ekki vita hvort önnur lönd fái aðgang að samningnum, að því er fram kemur í fréttaskýringu um samning þennan í Morgunblaðinu í dag. Hann væri þó þeirrar skoðunar að ef markmið TTIP væri að bæta umgjörð alþjóðlegra viðskipta væri skynsamlegast að klára viðræður og fjölga svo samningsaðilum.