Fjárfesting vegna lúxushótelsins sem til stendur að byggja í Hafnarstræti 17 til 19 nemur um þremur milljörðum króna og munu framkvæmdir hefjast þegar greitt hefur verið úr skipulagsmálum hjá Reykjavíkurborg.
Búið er að samþykkja deiliskipulag vegna svæðisins en eftir standa mál er snúa að samþykki fyrir sameiningu lóða 17 og 19 auk þess sem spennistöð er á svæðinu og ekki er búið að leysa úr því hvað gert verður við hana. Munu framkvæmdir hefjast þegar greitt hefur verið úr þessum atriðum.
Eigandi fasteignarinnar er félagið Suðurhús ehf. sem er í eigu Skúla Gunnars Sigfússonar og fjölskyldu. Skúli er m.a. stofnandi og eigandi Subway á Íslandi og einn eigandi Hamborgarafabrikkunnar ásamt Simma og Jóa. Skúli á þá fyrir eitt íbúðarhótel, K Apartments, í Þingholtsstræti 2-4. Húsnæðið endurbyggði hann á sínum tíma.
Til stendur að endurbyggja fasteignirnar í Hafnarstræti frá grunni og hús númer 19, sem byggt var á árunum 1925 og 1990, verður rifið en endurbyggt í sömu mynd þar sem framhlið byggingarinnar og útlit er verndað. Hús númer 17 verður hins vegar ekki rifið þar sem það er friðað, heldur verður það endurbyggt. Þá verða skúrarnir sem standa að baki húsi númer 17, við hlið Bæjarins bestu, rifnir. Bæjarins bestu verður þó enn á sínum stað.
Kolasund liggur í gegnum Hafnarstræti 17 og 19 og verður haldið í þá mynd. Í dag er þar lokað port en stefnt er að því að Kolasundið muni ganga í gegnum hótelið.
Icelandair Hotels, dótturfélag Icelandair Group, mun leigja fasteignina til tuttugu ára og segir Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála Icelandair Group, að hótelið muni einkennast að betri gæðum og frábærri staðsetningu. Ekki er þó stefnt að ákveðinni stjörnugjöf. Þá segir hann að veitingastaður verði í húsinu þó ekki liggi fyrir hvort rekstur hans verði í höndum Icelandair eða utanaðkomandi aðila. Ætlunin er að opna hótelið í ársbyrjun 2016.
Á hótelinu verða sjötíu herbergi og sáu THG arkitektar um hönnun þess.
Fyrri frétt mbl: Nýtt lúxushótel í Hafnarstræti