Hraunið kostaði 200 milljónir

Þáttaröðin Hraunið var umfangsmikil í framleiðslu og kostaði 200 milljónir.
Þáttaröðin Hraunið var umfangsmikil í framleiðslu og kostaði 200 milljónir. Mynd/RÚV

Þáttaröðin Hraunið kostaði um tvö hundruð milljónir í framleiðslu og hefur sýningarrétturinn verið seldur til í Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Tékklands, Lettlands, Belgíu, Hollands og Lúxemborgar. Viðræður um framhald eru þegar hafnar.

Sýningum á Hrauninu lauk í gær og samkvæmt mælingum Capacent var um 34,2 prósent áhorf á lokaþáttinn hjá fólki á aldrinum 12 til 80 ára. Þáttaröðin var framleidd af framleiðslufyrirtækinu Pegasus en meðframleiðendur voru RÚV og norska-, sænska og finnska ríkissjónvarpið.

Ríflegra framlag frá RÚV

Kostnaður Ríkissjónvarpsins nam um fimmtíu milljónum króna að meðtöldum kostnaði við sýningarréttinn. Þá tóku norrænu sjónvarpsstöðvarnar einnig þátt í kostnaðinum auk þess sem þættirnir voru seldir í forsölu til Lettlands og Tékklands. Styrkir voru veittir úr Media sjóðnum sem styrkir evrópska þátta- og kvikmyndagerð, frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu.

Að sögn Skarphéðins Guðmundssonar, dagskrárstjóra RÚV, var framlag Ríkissjónvarpsins til verkefnisins aðeins ríflegra en verið hefur til annarra þáttaráða en þó svipað.

„Framlagið er þó aldrei eins hátt og menn vildu hafa það. Það eru mikil átök að koma svona verkefni í framleiðslu en RÚV hefur lítið fjármagn til að setja í svona þáttaraðir og við þurfum að koma að fleiri verkefnum og deila fjármunum þannig niður,“ segir hann.

„Við erum meðframleiðendur og vildum gjarnan að framlag okkar væri hærra því þá ættum við meira í þáttaröðunum og hefðum meira um þær að segja.“ segir hann.

Umfangið meira

Lilja Ósk Snorradóttir, framkvæmdastjóri Pegasus, segir þáttaröðina hafa verið aðeins dýrari í framleiðslu en aðrar á þeirra vegum, líkt og til dæmis Fólkið í blokkinni, enda hafi umfangið verið meira, þættirnir lengri, leikarar fleiri og eftirvinnsluferlið mun tímafrekara. Hún segir að aldrei sé þó lagt upp í framleiðslu sem þessa án þess að víst sé að tap verði ekki af.

„Við erum alltaf búin að selja fyrirfram og förum ekki út í framleiðslu án þess að lenda að minnsta kosti á sléttu. Það er bónus að ná að selja aukalega og þegar það gerist erum við mjög glöð,“ segir hún.

Framhald mjög líklegt

Hún segir dreifingu á Hrauninu hafa verið mjög góða og betri en á öðrum þáttaröðum úr þeirra framleiðslu.  Þegar er tryggt að þættirnir verða sýndir í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Tékklandi, Lettlandi, Belgíu, Hollandi og Lúxemborg. Þá var söluaðili á vegum fyrirtækisins á sjónvarpsráðstefnu í Cannes í Frakklandi í vikunni að kynna þáttinn og segir Lilja það hafa gengið vel en ótímabært sé hins vegar að segja til um frekari dreifingu. Auk Hraunsins keyptu sjónvarpstöðvarnar í Hollandi, Lúxemborg og Belgíu einnig Hamarinn og verður hann tekinn til sýningar á undan Hrauninu.

Aðspurð um mögulegt framhald segir hún að þegar sé búið að hafa samband við handritshöfundinn, Sveinbjörn I. Baldursson, og verið sé að henda hugmyndum fram og til baka. „Þannig að það er mjög líklegt,“ segir Lilja.

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV
Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri RÚV
Reynir Lyngdal, leikstjóri, og Lilja Ósk Snorradóttir framleiðandi Hraunsins
Reynir Lyngdal, leikstjóri, og Lilja Ósk Snorradóttir framleiðandi Hraunsins Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK