Afnema ætti undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum og skipta upp þeim einokunarrisa sem þegar er orðinn til að mati Ólafs Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda. Hann telur það ekki skipta máli hvort neytendur hafi notið góðs af samráði á mjólkurmarkaðnum eður ei.
„Hvað ef niðurstaðan er sú að neytendur hafi grætt af samráði og einokun. Er það þá bara sniðug hugmynd sem ætti að prófa í fleiri geirum og vera til dæmis bara með eitt bakarí?“ spyr Ólafur og vísar til málefna mjólkuriðnaðarins.
Ólafur hélt í dag erindi á hátíðarmálþingi Úlfljóts, tímarits laganema við Háskóla Íslands, sem fjallaði um samkeppnisrétt í ljósi búvöruframleiðslu og EES-réttar.
Í samtali við mbl benti hann á að mörg ár gæti tekið að fá niðurstöðu í mál Samkeppniseftirlitsins gegn Mjólkursamsölunni og velti því upp hvort hún skipti í raun einhverju máli varðandi pólitískar ákvarðanir um að afnema undanþágu mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum. „Jafnvel þótt niðurstaðan yrði sú að vegna undanþágunnar í búvörulögum frá samkeppnislögum hefði þessi háttsemi MS, þ.e. að mismuna keppinautum sínum, verið innan ramma laganna, þá ætti það ekki að skipta neinu máli, varðandi svarið við þeirri spurningu hvort menn vilji afnema undanþágur mjólkuriðnaðarins frá samkeppnislögum,“ sagði hann.
„Iðnaðar- og viðskiptaráðherrann vill að samkeppnislög gildi um mjólkuriðnaðinn eins og aðrar atvinnugreinar, en vill bíða niðurstöðu MS-málsins og hagfræðilegrar úttektar á því hvort samrunar og hagræðing í mjólkuriðnaðinum, í skjóli einokunar, hafi skilað neytendum þeim hagsbótum sem að var stefnt,“ segir Ólafur. „Skiptir sú niðurstaða heldur einhverju máli?“ segir hann og spyr hvort það sé þá ekki sniðug hugmynd að beita einokun í fleiri greinum.
„Í öllum vestrænum markaðssamfélögum hefur það sýnt sig að yfir lengri tíma er samkeppnin best fyrir neytendur. Samkeppnislögmálin eiga ekkert síður við í landbúnaði,“ segir Ólafur og bendir jafnframt á að ekki liggi fyrir hvernig þróunin hefði orðið ef samkeppnin á mjólkurmarkaði hefði verið frjáls undanfarinn áratug. „Við getum þó horft á kjötmarkaðinn þar sem samkeppni er meiri en á mjólkurmarkaði og verðlækkanir hafa jafnframt verið meiri,“ segir hann.
Aðspurður hvað sé til ráða segir hann að afnema þurfi undanþágurnar. „En það dugir samt kannski ekki til vegna þess að þessi einokunarrisi er orðinn til á markaðnum og Samkeppniseftirlitið hefur ekkert getað skipt sér af þessum samrunum,“ segir hann og telur tvenna kosti í stöðunni; Annars vegar að auka innflutning og efla þannig samkeppnina og að breyta skipulagi á mjólkurmarkaðnum og brjóta samstæðu Mjólkursamsölunnar upp samkvæmt heimildum í samkeppnislögum.
„Ég velti einnig upp þeirri spurningu hvort innflytjandi á matvöru sé eitthvað ómerkilegra fyrirtæki heldur en matvöruframleiðandi? Eru ekki báðir bara í því að svara þörf neytenda fyrir nauðsynjavörur? Hvaða rök eru eiginlega fyrir því að stjórnkerfið mismuni þessum fyrirtækjum?“ segir Ólafur og vísar þar til ákvarðana nefndar um inn- og útflutning á landbúnaðarvörum, sem hafi hyglað innlendum framleiðendum á kostnað innflutningsfyrirtækja.
Aðspurður hvort það væri raunhæfur kostur að skipta Mjólkursamsölunni upp segir hann að það sé eitthvað sem samkeppnisyfirvöld þurfi að skoða og ef einhvern tímann hafi verið tilefni til þess að nota slíkar lagaheimildir sé það núna.