Frá og með næstu áramótum verður starfsfólki tóbaksfyrirtækisins Camel ekki heimilt að reykja við skrifborðið sitt í vinnunni.
Fyrirtækið er það næst stærsta sinnar tegundar í Bandaríkjunum en í gær fengu starfsmenn tölvupóst er sagði að ekki yrði heimilt að reykja sígarettur, vindla eða pípur við skrifborðin, á skrifstofunni, í fundarherbergjum, á göngunum eða í lyftunni. Reykingabann var þegar í gildi í verksmiðjunni, matsalnum og ræktinni.
Reykingarými verða þó sett upp innanhús fyrir þá sem ekki komast í gegnum daginn án þess að kveikja sér í. Talsmaður fyrirtækisins, David Howard, segir fyrirkomulagið vera í hag reykingamanna jafnt sem þeirra sem ekki reykja. „Við erum bara að samræma okkar stefnu betur að því sem almennt gengur í samfélaginu í dag,“ sagði hann í samtali við Huffington Post.
Hlutfall reykingamanna innan fyrirtækisins er svipað heildarhlutfalli reykingamanna í Bandaríkjunum eða um 18 prósent. Starfsmenn fyrirtækisins eru 5.200 talsins.