24 bankar stóðust ekki álagspróf

Ítalski bankinn Monte dei Paschi kom verst út í álagsprófinu.
Ítalski bankinn Monte dei Paschi kom verst út í álagsprófinu.

24 bankar í Evrópu standast ekki álagspróf, að mati Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar (EBA). Bankar á Ítalíu koma verst út, en níu bankar í landinu standast ekki álagspróf.

Könnunin náði til 123 banka sem starfa innan Evrópusambandsins. Ítalski bankinn Monte dei Paschi kemur verst út í álagsprófinu. Auka þarf hlutafé hans um 2,1 milljarð evra til að standast kröfur. Bankanum voru lagðir til meiri fjármunir fyrr á þessu ári en það dugar ekki til.

Þrír grískir bankar stóðust ekki álagsprófið, en þá skortir samtals 8,7 milljarða evra til að standast það. Þrír bankar á Kýpur eru í sömu stöðu, en þá skortir samtals 2,4 milljarða evra.

Bankarnir hafa núna níu mánuði til að gera ráðstafanir sem uppfyllir kröfur EBA. Nái þeir ekki að uppfylla kröfur sem til þeirra eru gerðar eiga þeir á hættu að verða lokað.

Íslensku bankarnir ekki með í rannsókninni

Fjármálaeftirlitið á Íslandi sendi frá sér fréttatilkynningu í dag vegna tilkynningar EBA.

„Fjármálaeftirlitið hefur sem kunnugt er áheyrnaraðild að EBA og hefur fylgst náið með undirbúningi álagsprófsins. Hvorki Fjármálaeftirlitið né íslenskir bankar tóku þátt í prófinu. Ástæðan er sú að þegar hafa verið framkvæmdar ítarlegar útlánaskoðanir hér á landi í kjölfar fjármálakreppunnar haustið 2008 og álagspróf fyrir íslenska banka taka mið af annars konar aðstæðum en hið samevrópska álagspróf gerir ráð fyrir.

Ekki eru fyrirliggjandi fyllilega sambærilegar upplýsingar varðandi íslenska banka, en þeir virðast þó koma vel út í samanburði við banka innan Evrópusambandsins. Má þar nefna að eiginfjárhlutfall stóru viðskiptabankanna þriggja á Íslandi hefur farið hækkandi undanfarin misseri. Í árslok 2013 var vegið eiginfjárhlutfallið 26,2% og 27,2% í lok annars ársfjórðungs 2014. Eiginfjárhlutfall banka innan Evrópusambandsins, sem byggir á úrtaki EBA á 55 bönkum, sýnir að vegið eiginfjárhlutfall var 14,4% í árslok 2012 og 15,7% í árslok 2013. Þá hefur vanskilahlutfall íslensku bankanna farið lækkandi. Samkvæmt útlánaðferð (e. facility) var vegið meðaltal vanskilahlutfallsins í árslok 2013 4,5% og 3,2% m.v. lok annars ársfjórðungs 2014. Vanskilahlutfall innan Evrópusambandsins, byggt á áðurnefndu úrtaki, sýnir að vegið meðaltal vanskilahlutfallsins var 6,5% í árslok 2012 og 6,8% í árslok 2013 og hefur farið hækkandi undanfarin misseri,“ segir í tilkynningu Fjármálaeftirlitsins.

Frétt BBC um bankana.

Frétt Reuters

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK