„Það er ekki nóg að kaupa bara kaffivél og húsnæði,“ segir Pétur Marteinsson, eigandi Kaffihúss Vesturbæjar, og bendir á að það sé tímafrekt og flókið ferli að opna lítið hverfiskaffihús þegar feta þarf sama ferli og sá sem ætlar til dæmis að opna stóra verslunarmiðstöð.
Opnun kaffihúss Vesturbæjar fór líklega framhjá fáum þar sem mikið hefur verið fjallað um málið og virðast engin takmörk á vinsældum þess. Þegar blaðamaður kom á staðinn blasti fyrsta spurningin beint við: „Eru alltaf svona margir hérna?“ Svarið var einfalt. Já. „Mig grunaði að þessu yrði vel tekið og að fólk yrði spennt fyrir að skoða kaffihúsið í hverfinu sínu, en ég bjóst nú ekki alveg við þessum ótrúlega áhuga,“ segir Pétur og hlær. „En þetta er nú ennþá nýtt og á eflaust eftir að róast aðeins,“ bætir hann við. Pétur hafði þá rétt lokið máli sínu þegar viðskiptavinur nálgaðist hann og spurði hvort ekki væri hægt að bæta við barstólum eða borðum þar sem fólk gæti staðið, þannig að unnt væri að taka við fleira fólki sem hefur lengi beðið eftir samkomustað í hverfinu.
Ljóst virðist að Vesturbæingar eru himinlifandi með nýjustu viðbótina í hverfið. „En þá vaknar spurningin,“ segir Pétur. „Hvers vegna eru ekki fleiri kaffihús og veitingastaðir í hverfunum?“ Hann telur tvær ástæður helst vera þar fyrir; Annars vegar skortur á fjármagni og hins vegar reglugerðarfrumskógur. „Sú fyrri er að svona kostar pening og fjárfestar hafa kannski ekki trú á þessu vegna þess að það er lítil saga af því að Íslendingar noti kaffihús eða hverfisbari mikið,“ segir hann.
„Hin ástæðan snýr að því að þetta er ekkert fyrir hvern sem er. Þetta er frumskógur af reglugerðum og það er einfaldlega ekkert hlaupið að því að opna kaffihús. Það þarf að fara í gegnum margar dyr og þú þarft að fá blessun ansi margra,“ segir hann.
Pétur er þó ekki óþekkur veitingabransanum en hann á einnig ásamt nokkrum öðrum Kex Hostel, Dill og pítsustaðinn nafnlausa á Hverfisgötu. Hann hefur því oftar en einu sinni farið í gegnum ferlið og setur spurningarmerki við hvort nauðsynlegt sé að gera sömu kröfur til allra í framkvæmdahugleiðingum - hvort sem ætlunin sé að opna lítið hverfiskaffihús eða stærðarinnar verslunarmiðstöð. „Við þurfum að hugsa út í þetta því það skiptir máli varðandi það hvernig borg við viljum byggja upp. Hvort við viljum hafa nokkra stóra aðila eða fjölbreyttari og smærri,“ segir hann. „Ég er viss um að það séu fleiri með þá flugu í hausnum að opna kaffihús í sínu hverfi en taka kannski ekki til hendinni vegna þessa.“
Hann tekur fram að viðmót starfsmanna hjá borginni sé vinalegt og til fyrirmyndar en hins vegar séu þeir að vinna eftir stífum reglugerðum. „Ég hef á tilfinningunni að það sé oft verið að samþykkja blint einhverjar tilkskipanir frá Evrópusambandinu. Í þessum hundrað fermetrum hérna erum við til dæmis með níu handlaugar og þrjú klósett. Þannig að í þessum reglugerðum eru settar býsna miklar kvaðir á svona lítinn rekstur,“ segir hann.
„Ég mæli eindregið með að áhugafólk um betri hverfi íhugi að opna kaffihús eða einhvern álíka rekstur. Það þarf hins vegar að gera sér grein fyrir hindrununum og flækjustiginu,“ segir Pétur. Sé hugsunin hjá einhverjum að opna lítið kaffihús er fyrsta skrefið að finna húsnæði. Þá þarf að leita til arkitektar sem teiknar upp rýmið en teikningarnar þarf síðan að bera undir byggingarfulltrúa og fá þær samþykktar af byggingarnefnd. Þá þarf að skoða hvort starfsemin passi inn í skipulagið. Finna þarf til húsasmíðameistara, pípulagningameistara, rafvirkjameistara, brunahönnuð, hljóðvistarhönnuð og byggingarstjóra svo dæmi séu tekin. „Þetta eru margir sérfræðingar og þeirra vinna er djöfull dýr,“ segir Pétur og bætir við að einnig sé mikilvægt að hlera íbúa og athuga hug nágranna fyrir svona starfsemi.
Að öllu þessu loknu þarf byggingarfulltrúi, borgarráð, vinnueftirlitið, heilbrigðiseftirlitið og slökkviliðið að leggja blessun sína yfir framkvæmdirnar áður en lögreglan gefur að lokum út veitingaleyfi. „Þetta er forsjárhyggja sem hugsuð er til að vernda verðandi gesti og leiðbeina fólki í svona framkvæmdum. Ég skil pælinguna og tortryggnina að öllum sé ekki treystandi til að hafa hag viðskiptavina í forgrunni en það er hins vegar spurning hvort þetta sé rétta leiðin og hvort ekki sé hægt að gera þetta á annan hátt,“ segir hann og bætir við að hreyfing komist aldrei á málið þar sem fáir láta sig það varða þegar þeir eru loks komnir í gegnum frumskóginn og búnir að opna staðinn sinn. „Það verða aldrei til nein hagsmunasamtök þeirra sem eru að eiga við stjórnkerfið við opnun kaffihúsa,“ segir hann glettinn.