Seðlabanki Svíþjóðar hefur ákveðið að lækka stýrivexti sína úr 0,25 prósentum í 0. Þetta er í fyrsta skipti sem vextir eru 0 prósentur í Svíþjóð. Til samanburðar má nefna að stýrivextir eru 6 prósent á Íslandi.
Með þessu vonast bankinn til þess að neysla aukist og verðbólga um leið en allt bendir til þess að verðhjöðnun verði 0,2% í Svíþjóð í ár. Samkvæmt spá bankans verður verðbólga 0,4% á næsta ári sem er undir markmiðum Seðlabanka Svíþjóðar.
Vaxtalækkunin nú er enn meiri en sérfræðingar höfðu spáð en þeir höfðu gert ráð fyrir lækkun um 20 punkta (0,20 prósentum).
Í september mældist verðbólga 0,4% í Svíþjóð en verðbólgumarkmið seðlabankans eru 2%. Því markmiði hefur ekki verið náð síðan í byrjun árs 2012.
Af níu fyrstu mánuðum ársins var verðhjöðnun í sjö þeirra sem þýðir að verð hefur lækkað en ekki hækkað. Þetta er þróun sem fjölmörg ríki Evrópu glíma nú við - lítil sem engin verðbólga.
Á Íslandi er verðbólga einungis 1,8% og hefur verið undir verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands frá því í febrúar en verðbólgumarkmið á Íslandi eru hærri heldur en í flestum ríkjum Evrópu eða 2,5%. Stýrivextir eru 6% á Íslandi.
Tilkynning Seðlabanka Svíþjóðar