Verðbólgan í október var engin þrátt fyrir að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 0,14% milli mánaða. Skýringin er sú að áhrif vegna lækkunar flugfargjalda voru ofmetin í vísitölu síðasta mánaðar um 0,17%. Verðbólgan síðustu 12 mánuði er 1,9% og hefur verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í 10 mánuði samfleytt.
Verðlag er nú stöðugra en í heilan áratug og ef hækkanir á húsnæði eru undanskildar er verðlag óbreytt frá því í desember 2013, segir í frétt um málið á vef Samtaka atvinnulífsins. Verðbólga hefur verið að minnka undanfarna mánuði og ef horft er til síðustu fjögurra mánaða er verðbólgan aðeins 1% á ársgrundvelli. Verðbólguvæntingar hafa jafnframt hjaðnað mikið.
„Þetta eru góðar fréttir því á sama tíma hefur tekist að auka kaupmátt launa eins og að var stefnt í síðustu kjarasamningum,“ segir í frétt Samtaka atvinnulífsins.
Fyrir ári síðan hvöttu Samtök atvinnulífsins til þess að launahækkanir yrðu sambærilegar og í nágrannalöndunum. „Þannig væri stuðlað að stöðugu verðlagi og aukningu kaupmáttar launa í hægum en öruggum skrefum, eins og annars staðar á Norðurlöndum, en ekki með þeim öfgafullu sveiflum sem tíðkast hafa hér á landi. Með samhentu átaki aðila á vinnumarkaði, stjórnvalda, fyrirtækja og starfsfólks hefur þetta tekist.
Þessi árangur ber þess órækt vitni að innleiðing nýrra vinnubragða á vinnumarkaði er nauðsynleg til að tryggja þann mikla ávinning sem allir landsmenn njóta góðs af.“