Hljómar flug frá Boston til Reykjavík fyrir 99 dollara of gott til að vera satt? Það er líklega vegna þess að það er það. Þetta kemur fram í umfjöllun bandaríska veftímaritsins Slate þar sem fjallað er um flug WOW Air á milli Reykjavíkur og Boston.
Líkt og fram hefur komið hóf flugfélagið sölu á flugsætum til Norður-Ameríku í síðustu viku en stefnt er að að fljúga til Boston og Washington á næsta ári.
Í fréttinni segir að flest sæti á auglýstu verði, þ.e. á 99 dollara, eða um 12 þúsund krónur, séu uppseld og að flugfarið sé frekar á 150 til 200 dollara verðbilinu. Þá er einnig bent á að rukkað sé aukalega fyrir allt annað en farþegann sjálfan auk fimm kílógramma handfarangurs. „Þegar þú hefur bætt öllum auka gjöldum við grunnfargjaldið og skattana er ódýra flugið til Evrópu ekki jafn ódýrt og það leit út fyrir að vera,“ segir í Slate.
Bent er á að óvíst sé hversu þröngt farþegar þurfi að sitja í vélinni en WOW Air svaraði ekki fyrirspurn blaðamanns Slate. Þó segir að í umfjöllun USA Today um málið komi fram að 200 sæta Airbus A321 Extended Range þotur verði notaðar í flugið og að ekkert fyrsta farrými sé í þeim. „Engin loforð eru gefin um mikil þægindi. En ef þú ert að leita eftir ódýru flugi til Íslands eða Evrópu, gæti þetta verið lausnin,“ segir að lokum.
Frétt mbl.is: Hvað kostar að fljúga til Ameríku?
Frétt mbl.is: Lága verðið komið til að vera