Færeyjum fjölgað um eina?

Metnaðarfull tillaga hefur verið lögð fram um að byggður verði nýr flugvöllur í Færeyjum á uppfyllingu úti í miðjum Tangafirði skammt frá höfuðstaðnum Þórshöfn. Ef af verður þýðir það í raun að Færeyjar verða ekki lengur 18 talsins heldur 19. Fyrir vikið er verkefnið kallað Airport 19.

Fyrir er Vágar-flugvöllurinn en hann er hins vegar á Vágey í nokkurri fjarlægð frá Þórshöfn sem er á Straumey. Flugvöllurinn er sá eini á Færeyjum og var upphaflega byggður af breska hernum í síðari heimsstyrjöldinni. Líkt og á við um Reykjavíkurflugvöll. Flugvöllurinn hefur hins vegar að ýmsu leyti ekki þótt nægjanlega hentugur. Einkum vegna þess að takmarkað er hversu stórar flugvélar geta lent á honum. Hugmyndin um nýja flugvöllinn gerir ráð fyrir að stærsta farþegaflugvél heims Airbus A380 geti lent á honum og að hann geti sinnt að fullu hlutverki alþjóðaflugvallar.

Fiskurinn á markaði á sem skemmstum tíma

Hugmyndin er að við flugvöllinn verði ennfremur stórskipahöfn þar sem stór farþegaskip geti lagst að bryggju. Sömuleiðis er hugmyndin að hægt verði að landa fiskafla í höfninni og koma honum beint í flutningaflugvélar. Aflinn væri þannig kominn á markaði um allan heim á sem skemmstum tíma. Þeim möguleika er ennfremur haldið opnum að höfnin gæti orðið að umskipunarhöfn. Nýja eyjan yrði síðan tengd landi með neðanjarðargöngum.

Tillagan var kynnt formlega 9. október en unnið hefur verið að útfærslu hennar í um ár að sögn Jóannesar Petersen arkitekts. Hugmyndin kviknaði í tengslum við áætlanir um gerð neðanjarðarganga yfir fjörðinn á milli Straumeyjar og Austureyjar. Hugmynd Jóannesar er að fyrirhuguð göng liggi í raun í gegnum nýju eyjuna.

Hópurinn sem stendur að tillögunni með Jóannesi telur að staðsetning nýja flugvallarins yrði mjög hagstæð með tilliti til veðurs og fjarlægðar frá fjöllum. Nýting hans ætti að vera allt að 100%. Þá yrði einnig mögulegt að lenda á honum í þoku með nýjustu tækni. Gert er ráð fyrir tveimur flugbrautum sem myndi X. Önnur yrði 3,3 kílómetrar að lengd og hin 2,5 kílómetrar.

Framkvæmdin verði í þremur áföngum

Reiknað er með að framkvæmdin kosti samtals 5,6 milljarða danskra króna eða sem nemur um 115,6 milljörðum íslenskra króna. Verkinu yrði skipt niður í þrjá áfanga. Fyrst yrði lengri flugbrautin lögð og minni flugstöðin af tveimur upp á 5 þúsund fermetra reist. Sömuleiðis bílastæðahús í tengslum við hana og tengingin við göngin auk brimvarnargarða. Kostnaðurinn við fyrsta áfangann er áætlaður 2,4 milljarðar danskra króna.

Styttri flugbrautin yrði síðan lögð í öðrum áfanga auk stærri flugstöðvarinnar og bílastæðahúss upp á 10 þúsund fermetra. Þá yrðu reist flugskýli og byrjað á framkvæmdum við höfnina auk þess sem frekari vinna við brimvarnargarða færi fram. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn við annan áfanga yrði 2 milljarðar danskra króna. Þriðji áfanginn fæli í sér frekari hafnarframkvæmdir, stækkun flugstöðva og flugskýla sem og bílastæðahúsa. Kostnaðurinn við síðasta áfangann er áætlaður 1,2 milljarðar danskra króna.

„Næsta skrefið hjá okkur er að undirbúa viðskiptaáætlun og skoða markaðinn með tilliti til fjármagns, bæði í Færeyjum og erlendis,“ segir Jóannes í samtali við mbl.is spurður um framhaldið. Hann segir aðspurður að Færeyskir ráðamenn séu áhugasamir um hugmyndina en hafi engin loforð gefið. Þegar fjárfestar hafa verið fengnir til þátttöku í verkefninu verði aftur rætt við stjórnvöld í Færeyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka