Færeyjum fjölgað um eina?

Metnaðarfull til­laga hef­ur verið lögð fram um að byggður verði nýr flug­völl­ur í Fær­eyj­um á upp­fyll­ingu úti í miðjum Tangaf­irði skammt frá höfuðstaðnum Þórs­höfn. Ef af verður þýðir það í raun að Fær­eyj­ar verða ekki leng­ur 18 tals­ins held­ur 19. Fyr­ir vikið er verk­efnið kallað Airport 19.

Fyr­ir er Vág­ar-flug­völl­ur­inn en hann er hins veg­ar á Vá­gey í nokk­urri fjar­lægð frá Þórs­höfn sem er á Straumey. Flug­völl­ur­inn er sá eini á Fær­eyj­um og var upp­haf­lega byggður af breska hern­um í síðari heims­styrj­öld­inni. Líkt og á við um Reykja­vík­ur­flug­völl. Flug­völl­ur­inn hef­ur hins veg­ar að ýmsu leyti ekki þótt nægj­an­lega hent­ug­ur. Einkum vegna þess að tak­markað er hversu stór­ar flug­vél­ar geta lent á hon­um. Hug­mynd­in um nýja flug­völl­inn ger­ir ráð fyr­ir að stærsta farþega­flug­vél heims Air­bus A380 geti lent á hon­um og að hann geti sinnt að fullu hlut­verki alþjóðaflug­vall­ar.

Fisk­ur­inn á markaði á sem skemmst­um tíma

Hug­mynd­in er að við flug­völl­inn verði enn­frem­ur stór­skipa­höfn þar sem stór farþega­skip geti lagst að bryggju. Sömu­leiðis er hug­mynd­in að hægt verði að landa fiskafla í höfn­inni og koma hon­um beint í flutn­inga­flug­vél­ar. Afl­inn væri þannig kom­inn á markaði um all­an heim á sem skemmst­um tíma. Þeim mögu­leika er enn­frem­ur haldið opn­um að höfn­in gæti orðið að um­skip­un­ar­höfn. Nýja eyj­an yrði síðan tengd landi með neðanj­arðargöng­um.

Til­lag­an var kynnt form­lega 9. októ­ber en unnið hef­ur verið að út­færslu henn­ar í um ár að sögn Jó­ann­es­ar Peter­sen arki­tekts. Hug­mynd­in kviknaði í tengsl­um við áætlan­ir um gerð neðanj­arðarganga yfir fjörðinn á milli Straumeyj­ar og Aust­ur­eyj­ar. Hug­mynd Jó­ann­es­ar er að fyr­ir­huguð göng liggi í raun í gegn­um nýju eyj­una.

Hóp­ur­inn sem stend­ur að til­lög­unni með Jó­ann­esi tel­ur að staðsetn­ing nýja flug­vall­ar­ins yrði mjög hag­stæð með til­liti til veðurs og fjar­lægðar frá fjöll­um. Nýt­ing hans ætti að vera allt að 100%. Þá yrði einnig mögu­legt að lenda á hon­um í þoku með nýj­ustu tækni. Gert er ráð fyr­ir tveim­ur flug­braut­um sem myndi X. Önnur yrði 3,3 kíló­metr­ar að lengd og hin 2,5 kíló­metr­ar.

Fram­kvæmd­in verði í þrem­ur áföng­um

Reiknað er með að fram­kvæmd­in kosti sam­tals 5,6 millj­arða danskra króna eða sem nem­ur um 115,6 millj­örðum ís­lenskra króna. Verk­inu yrði skipt niður í þrjá áfanga. Fyrst yrði lengri flug­braut­in lögð og minni flug­stöðin af tveim­ur upp á 5 þúsund fer­metra reist. Sömu­leiðis bíla­stæðahús í tengsl­um við hana og teng­ing­in við göng­in auk brim­varn­argarða. Kostnaður­inn við fyrsta áfang­ann er áætlaður 2,4 millj­arðar danskra króna.

Styttri flug­braut­in yrði síðan lögð í öðrum áfanga auk stærri flug­stöðvar­inn­ar og bíla­stæðahúss upp á 10 þúsund fer­metra. Þá yrðu reist flug­skýli og byrjað á fram­kvæmd­um við höfn­ina auk þess sem frek­ari vinna við brim­varn­argarða færi fram. Gert er ráð fyr­ir að kostnaður­inn við ann­an áfanga yrði 2 millj­arðar danskra króna. Þriðji áfang­inn fæli í sér frek­ari hafn­ar­fram­kvæmd­ir, stækk­un flug­stöðva og flug­skýla sem og bíla­stæðahúsa. Kostnaður­inn við síðasta áfang­ann er áætlaður 1,2 millj­arðar danskra króna.

„Næsta skrefið hjá okk­ur er að und­ir­búa viðskipta­áætl­un og skoða markaðinn með til­liti til fjár­magns, bæði í Fær­eyj­um og er­lend­is,“ seg­ir Jó­ann­es í sam­tali við mbl.is spurður um fram­haldið. Hann seg­ir aðspurður að Fær­eysk­ir ráðamenn séu áhuga­sam­ir um hug­mynd­ina en hafi eng­in lof­orð gefið. Þegar fjár­fest­ar hafa verið fengn­ir til þátt­töku í verk­efn­inu verði aft­ur rætt við stjórn­völd í Fær­eyj­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK