Hver græðir á tónlistinni?

Ásgeir Trausti.
Ásgeir Trausti. Gudmundur Vigfusson

„Allur peningur sem kemur inn er bara notaður til að byggja þetta frekar upp,“ segir umboðsmaður Ásgeirs Trausta og bendir á að tónlistarmenn séu eins og lítil sprotafyrirtæki og að þolinmæði sé lykilatriði í tónlistarbransanum. 

„Vissulega er þetta list og fólk er að gera eitthvað sem það elskar að gera en þegar þú ætlar að flytja tónlistina út færist alvara í leikinn,“ segir María Rut Reynisdóttir, umboðsmaður Ásgeirs Trausta, Hjálma og fleiri hljómsveita. Hún verður hún með erindi á fundi VÍB um fjármál í íslenskri tónlist sem haldinn verður á Kex hosteli klukkan 17 í dag. „Þegar maður er að vinna með listamenn eins og Ásgeir Trausta er þetta bara rekstur. Þetta er vörumerki sem verið er að flytja út og koma á framfæri,“ segir hún.

Tónleikaferðir lengi að borga sig upp

Hún segir tónlistarbransann þó vera frábrugðinn öðrum þar sem enginn fjárfestir leggi til fjármagn með hefðbundnum hætti og eignist hlutdeild í fyrirtækinu, enda væri það í sjálfu sér ekki eftirsóknarvert. „Aðalfjárfestingin kemur frá okkur sjálfum. Þetta er mjög dýrt. Þú færð ákveðna fyrirframgreiðslu inn í fyrirtækið frá útgáfunni en allur sá peningur er notaður til þess að byggja áfram. Það þarf að kaupa græjur og ráða hljóðfæraleikara og allt fer beinleiðis aftur í reksturinn,“ segir hún. „Þetta er ákveðin fórn sem fólk sem er að vinna að verkefninu færir,“ segir hún og bætir við að mislangan tíma taki þó að koma sér upp á núllið. 

Helstu tekjulindirnar segir hún vera plötusölu og sölu á tónlist í til dæmis auglýsingar og sjónvarpsþætti en tónleikaferðir séu hins vegar nokkuð sem þurfi að stunda í langan tíma áður en það fari að borga sig. Þá fá útgefendur einnig hluta af tekjum tónlistarmanna sinna en María segir þann hluta geta verið allt frá tuttugu upp í áttatíu prósent og fari eftir ýmsum breytum. Algengast sé þó að hann sé í kringum þrjátíu prósent.

Verður dýrara með velgengni

María bendir á að plötusala hjá Ásgeiri Trausta hafi gengið mjög vel á Íslandi og þar með góður grundvöllur fyrir framhaldið. „En svo vindur þetta upp á sig. Þegar þú ert farinn að spila víðar og á stærri stöðum þarftu stærra teymi. Allt í einu ertu með tíu manns í vinnu og tvær rútur. Flugferðirnar bætast við og gistingin og þú heldur þannig áfram á núllinu.“ Aðspurð hvort útgáfufyrirtækin taki ekki þátt í slíkum kostnaði segir hún það afar mismunandi eftir fyrirtækjum. „Þú færð stuðning en honum er ætlað að duga fyrst um sinn á meðan túrarnir eru í blússandi mínus. Síðan eiga þeir að standa undir sér og þetta þarf að vera ansi stórt til að svo verði,“ segir hún. „Þú þarft að vera þolinmóður og færð jafnvel ekki sjálfur laun þar sem þú þarft fyrst að greiða öllum öðrum í teyminu.“

Hún segir veruleika flestra íslenskra tónlistarmanna vera þann að nauðsynlegt sé að vera einnig í öðru starfi. „Ef þú ætlar að lifa á tónlistinni einni þarftu oftast að vera í mörgum hljómsveitum og setja upp marga hatta.“

María segir þó að Ásgeir Trausti sé nú kominn yfir þetta tímabil en hann hefur verið á þeysingi um allan heim á liðnum árum. Síðasta ári varði hann til helminga á tónleikaferðalagi annars vegar og á Íslandi hins vegar.

Óperuhúsið í Sydney

Hún segir sölu ganga sérstaklega vel í Frakklandi, Japan og Ástralíu og að boltinn sé jafnframt farinn að rúlla í Bandaríkjunum. Á þessu ári hefur Ásgeir farið tvisvar til Japans og Ástralíu að spila og fer hann aftur í janúar þar sem hann meðal annars verður með tvenna tónleika í stóra salnum í óperuhúsinu í Sydney. Uppselt er á fyrri tónleikana en sala á þá síðari er nýhafin.

María Rut Reynisdóttir, umboðsmaður Ásgeirs Trausta.
María Rut Reynisdóttir, umboðsmaður Ásgeirs Trausta. Ómar Óskarsson
Það getur liðið langur tími áður en tónleikaferðalög fara að …
Það getur liðið langur tími áður en tónleikaferðalög fara að gefa af sér. Rósa Braga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK