Óvissa ríkir um framtíð skemmtistaðarins Goldfinger og skellt verður í lás hinn 16. desember ef eigandi staðarins fær ekki lán til að kaupa húsnæðið.
Húsnæðið er í eigu Landsbankans og hefur verið á sölu um nokkurt skeið en kaupverðið er sextíu milljónir króna. Landsbankinn sagði upp leigusamningi Goldfinger fyrir nokkru og þarf Jaroslava Davíðsson, ekkja Ásgeirs Davíðssonar eða Geira á Goldfinger, að skila lyklunum hinn 16. desember næstkomandi.
Jaroslava er hins vegar að reyna að kaupa húsnæðið til að halda rekstrinum gangandi og sótti um lán hjá Landsbankanum. „Ég var alveg viss um að ég fengi lánið. Í þrjár vikur taldi Landsbankinn mér trú um það, en hafnaði síðan umsókninni,“ segir hún. Nú hefur hún sótt um lán hjá öðrum bönkum og segir hún málið í vinnslu. „Ég er bara að reyna að bjarga Goldfinger og vona að ég nái að kaupa húsnæðið,“ segir Jaroslava.
Goldfinger verður fimmtán ára 13. desember og segir Jaroslava ekki koma til greina að færa reksturinn annað enda sé rekstrarleyfið tengt húsnæðinu. „Það þyrfti þá að vera eitthvað annað og nýtt, en ef ég get ekki bjargað Goldfinger mun ég bara halda áfram með lífið,“ segir hún og bætir við að þegar einar dyr lokist opnist aðrar.
Hún segir enga ástæðu hafa legið að baki uppsögn leigusamningsins aðra en að selja eigi húsnæðið. „Þau vilja bara að ég hreinsi staðinn og telja kannski að það gangi betur að selja tómt húsnæðið. En ég er búin að skoða fasteignasölurnar og það er ótrúlega mikið af auðum eignum hér í kringum okkur,“ segir hún.
Goldfinger er með starfssamning við tólf konur sem eru að sögn Jarolslövu frá ýmsum löndum; Tékklandi, Ungverjalandi, Dóminíska lýðveldinu, Frakklandi, Spáni, Rúmeníu og Lettlandi. Þær eru ekki búsettar á Íslandi heldur ferðast fram og til baka fyrir vinnuna en vanalega eru þrjár konur á landinu hverju sinni. Hún segir þær allar vilja halda staðnum áfram gangandi.