Embætti Landlæknis gerir athugasemdir við að hollustuvörur á borð við ávexti og grænmeti komi til með að hækka í verði með fyrirhuguðum breytingum á virðisaukaskattskerfinu en verð á óhollustu, líkt og gosdrykkjum og sælgæti, lækki með afnámi vörugjalda.
Þetta kemur fram í umsögn embættisins um frumvarp til laga um breytingu virðisaukaskatt, brottfall laga um vörugjald og breytingu á lögum um tekjuskatt.
„Embætti landlæknis vekur athygli á að ef þessar tillögur ná fram að ganga munu hollustuvörur á borð við ávexti og grænmeti hækka í verði sem nemur um 5%. Kíló af tómötum sem kostar í dag 459 krónur, í ákveðnum stórmarkaði, kemur til með að hækka í a.m.k. 480 krónur eftir breytingamar, endanlegt verð fer eftir álagningu vörunnar. Kíló af gulrótum myndi fara úr 718 krónum í 752 krónur,“ segir í umsögninni.
„Samhliða þessu koma gosdrykkir til með að lækka í verði við afnám vörugjalds, þó mismikið eftir stærð pakkninga og álagningu, þrátt fyrir að virðisaukaskattur á þeim hækki. Tveggja lítra gosflaska sem í dag kostar 295 krónur, í ákveðnum stórmarkaði, gæti lækkað um a.m.k. 11%.“
Þá segir að ekki sé farsælt, hvorki út frá sjónarmiðum heilsueflingar né jöfnuðar til heilsu, að lækka álögur á óhollustu eins og gosdrykki og sælgæti því það getur haft í för með sér aukna neyslu á þessum vörum sem er þó mikil fyrir. „Neysla á sykurríkum vörum eykur líkur á offitu og tannskemmdum og mikil neysla á sykruðum gos- og svaladrykkjum getur auk þess aukið líkur á sykursýki af tegund tvö. Hækkun á verði grænmetis og ávaxta getur hins vegar dregið úr neyslu þeirra sem er nú þegar of lítil, aðeins um helmingur af því sem ráðlagt er.“
Þá er bent á að verðstýring með sköttum eða vörugjaldi sé áhrifarík forvörn til að minnka neyslu og mest þar sem þörfin er brýnust, þ.e. hjá börnum og ungmennum og þeim sem drekka mest af gosdrykkjum.
Lagt er til að gætt verði að því að gosdrykkir og sælgæti lækki ekki í verði og er bent á að leið til þess gæti verið að leggja áþreifanlegan skatt á gosdrykki og sælgæti beint til að draga úr sykurneyslu landsmanna, þ.e. almennilegan sykurskatt, eða að færa gosdrykki og sælgæti í efra þrep virðisaukaskattsins, þ.e. 24% þrepið. Jafnframt er mælt með að nýta fjármuni sem koma inn við álagningu á óhollustu til að standa straum af afnámi virðisaukaskatts á grænmeti og ávöxtum.