Sjávarútvegsfyrirtækið G. Run í Grundarfirði hlýtur viðurkenningu Morgunblaðsins, Vitann 2014, á Snæfellsnesi. Það hefur lengi verið stólpi atvinnulífsins í sinni heimabyggð með 90 starfsmenn. Það sinnir bæði útgerð og fiskvinnslu og hefur getið sér orð fyrir markvissa vinnu að því að auka arðsemina með bættri nýtingu hráefnis og heildstæðri umhverfisstefnu.
G. Run er rótgróið fyrirtækið. Rætur þess liggja sextíu ár aftur í tímann. Það er kennt við frumkvöðulinn, útgerðarmanninn Guðmund Runólfsson í Grundarfirði. Starfsemin hefur alla tíð snúist um útgerð og fiskvinnslu á staðnum. Í núverandi mynd var fyrirtækið stofnað árið 1974 og efldist mjög á tíunda áratugnum eftir að það var sameinað frystihúsinu í bænum. Það er fjölskylda Guðmundar, sjö börn hans og einn frændi, sem á og rekur fyrirtækið. Starfsmenn eru 10% af öllum íbúum í Grundarfirði.
Starfsemi G. Run er þríþætt, veiðar, landvinnsla og veiðarfæragerð. Fyrirtækið gerir út tvö skip, minni gerðir af skuttogurum. Þetta eru Helga SH 135 og Hringur SH 153. Þau eru með tíu manna áhöfn hvort. Skipin sækja eingöngu karfa, þorsk, ufsa og ýsu. Fiskurinn er ýmist unninn í frystihúsinu í bænum eða seldur ferskur úr landi.
Skipin eru aðeins tvo til þrjá daga að veiðum í senn. Þau sigla heim þegar þau hafa fyllt sig. Þessi stutti tími veldur því að fyrirtækin geta boðið upp á ferskara og betra hráefni. Um leið leggur það lóð á vogarskálar betri fjölskyldulífs sjómanna sinna.
G. Run fylgir markvissri umhverfis- og samfélagsstefnu. „Við berum virðingu fyrir umhverfi okkar og því samfélagi sem við störfum í og leitumst við að skapa starfsumhverfi sem laðar að hæfa starfsmenn,“ segir í stefnuyfirlýsingu fyrirtækisins sem lesa má á vef þess. Fyrirtækið hefur markvisst leitast við að sameina fjárhagslegan og umhverfislegan ávinning með því að bæta nýtingu hráefna, efna og orku sem notuð eru í starfseminni. Það hefur einnig lagt áherslu á jöfn tækifæri starfsfólks, óháð kyni, aldri eða þjóðerni. Boðið er upp á breytilegan vinnutíma og almennt ekki unnið lengur en átta tíma á sólarhring þar sem því verður við komið sem er einkum í landvinnslu og netagerð.
Dregið hefur úr þýðingu veiðarfæragerðar G. Run vegna tækniframfara. Verkefnin á því sviði hafa aðallega falist í gerð botntrolla fyrir fiskiskip í Grundarfirði og þjónustu við rækjuveiðibáta á Breiðafjarðarsvæðinu.