Forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, varar við því að öll viðvörunarljós séu farin að blikka og hætta sé á öðru efnahagshruni.
Segir Cameron að öll viðvörunarljósin séu farin að blikka í mæalborði efnahagsmála heimsins og líkir hann ástandinu nú við það sem gerðist fyrir hrunið fyrir sex árum. Þetta kemur fram í grein sem Cameron ritar í Guardian í dag við lok G20-ráðstefnunnar í Brisbane í Ástralíu.
Hann segir að óstöðugleiki og óöryggi einkenni efnahag heimsins núna og að bresku hagkerfi stafi raunveruleg hætta af þessu. Bendir hann á að samdrátturinn á evrusvæðinu sé þegar farinn að hafa áhrif á útflutning frá Bretlandi og framleiðslu.
Í síðustu viku sagði seðlabankastjóri Englands, Mark Carney, að hætta væri á stöðnun víða í Evrópu og svipað kom fram í máli forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Christine Lagarde, á fundinum í Brisbane þar sem leiðtogar 20 helstu iðnríkja heims komu saman. Sagði hún að jafnvel mætti búast við því að atvinnuleysi og lítill hagvöxtur yrði hefðbundið ástand í Evrópu.