Birgir Jónsson hefur tekið við starfi aðstoðarforstjóra WOW air. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Birgir hefur víðtæka reynslu úr atvinnulífinu bæði hér á landi og erlendis. Hann starfaði sem svæðisstjóri Össurar í Asíu á árunum 2001 -2004, sem forstjóri Iceland Express 2004-2006 og sem forstjóri Infopress Group sem er ein stærsta prentsmiðja í Evrópu, með starfsemi í þremur löndum, á árunum 2006 -2010. Frá 2010 hefur Birgir starfað sjálfstætt og sem tónlistarmaður, meðal annars sem trommari í þungarokkshjómsveitinni Dimmu.
Birgir er rekstrarhagfræðingur og með MBA gráðu frá University of Westminster í Bretlandi.
Samkvæmt tilkynningunni hefur Birgir starfað hjá WOW air síðustu tvo mánuði sem ráðgjafi en tekur nú við sem aðstoðarforstjóri félagsins. Hann mun sjá um daglegan rekstur WOW air en félagið er í hröðum vexti. Markmið WOW air á næstu tveimur árum er að fjölga farþegum úr 500 þúsund farþegum í 1,2 milljónir farþega árið 2016.
„Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air mun einbeita sér að áframhaldandi vexti félagsins, stefnumótun, nýjum áfangastöðum, stækkun flugflotans og langtíma fjármögnun félagsins,“ segir í tilkynningunni.