Hjólagaffall frá Lauf forks gekk um salinn á stefnumóti áliðnaðarins sem haldið var í dag, en þar komu hátt í sjötíu fyrirtæki og stofnanir saman til að ræða nýsköpunarumhverfið og hlýða á örkynningar frá einstaklingum og fyrirtækjum um þróunarverkefni af ýmsum toga. Fulltrúar Lauf forks mættu á reiðhjóli, en þau eru með hugmyndir um að þróa nýja útgáfu af hinum viðhaldsfría og fislétta Lauf-hjólagaffli úr áli.
Þetta var ein af átján nýsköpunarhugmyndum sem fengu örkynningu, þ.e. hver þeirra var kynnt á einungis þremur mínútum, en síðan voru hugmyndirnar ræddar ítarlega í skólastofum sem lagðar voru undir stefnumótið í Háskólanum í Reykjavík, að því er segir í tilkynningu.
Fram kemur, að verkefnin hafi verið af ólíkum toga, flest lotið að nýsköpun í framleiðsluferli álvera, þar sem komi við sögu verkfræðistofur, málmsmiðjur, vélsmiðjur og stofnanir á borð við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og háskólasamfélagið. En þarna voru einnig hugmyndir sem lutu að úrvinnslu áls, fullnýtingu í áliðnaði og samræmingu í öryggismálum.
Stefnumótið hófst á erindum um nýsköpunarumhverfi áliðnaðarins, en það voru Ari Kristinn Jónsson rektor HR og Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls sem hófu fundinn. Á meðal fyrirlesara voru Guðrún Sævarsdóttir forseti tækni- og verkfræðideildar HR sem talaði um mikilvægi þekkingar og nýsköpunar fyrir áliðnaðinn, Hilmar Bragi Janusson forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ sem talaði um þekkingarkvíar fyrir ál- og efnisiðnað, Þröstur Guðmundsson frá HRV sem fjallaði um árangursríkt samstarf álfyrirtækis og tæknifyrirtækis, Sigurður Björnsson frá Rannís sem fór yfir fjármögnun og matsaðferðir nýsköpunarverkefna og loks talaði Guðbjörg Óskarsdóttir verkefnisstjóri um þróunarsetur í efnistækni sem sett hefur verið á laggirnar við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, að því er fram kemur í tilkynningu.
Að stefnumótinu stóðu Samtök iðnaðarins og Samál, samtök álframleiðenda, ásamt íslenska álklasanum, en stefna álklasans var gefin út samhliða stefnumótinu og var hún mótuð á tveggja daga stefnumótunarfundi í Borgarnesi í apríl síðastliðnum. Þar er einkum lögð áhersla á að efla rannsóknir og þróun í samstarfi áliðnaðarins, rannsóknarstofnana og háskólasamfélagsins.