Formaður slitastjórnar Glitnis segir 35 prósent skattlagningu á greiðslur yfir landamæri úr slitabúum föllnu bankanna vera fullkomlega óraunhæfa hugmynd.
Í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag var greint frá því að í fyrirliggjandi tillögum framkvæmdastjórnar stjórnvalda um afnám hafta að útgöngugjaldið svokallaða verði 35 prósent. Samkvæmt þessu gætu slitabúin þurft að greiða samtals yfir fimm hundruð milljarða króna í sérstakan skatt til ríkisins vilji þau undanþágu frá fjármagnshöftum til að inna af hendi greiðslur úr landi til kröfuhafa. Bókfært virði eigna slitabúa Kaupþings, Glitnis og gamla Landsbankans (LBI) nam tæplega 2.600 milljörðum króna um mitt þetta ár og eiga erlendir aðilar eiga 94% allra krafna á hendur búunum.
Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segist hafa orðið vör við umræðu um ýmsar tölur án þess að málið hafi þó sérstaklega verið rætt við fyrirsvarsmenn búanna. Hún sagðist þó aldrei hafa heyrt neitt í líkingu við þetta og segir slíka skattlagningu fullkomlega óraunhæfa, standi á annað borð vilji til þess að leysa málin. Vildi hún þó ekki tjá sig um málið að öðru leyti á þessu stigi.
Í umfjöllun Morgunblaðsins segir að fari slitabúin fram á að fá samþykktar undanþágubeiðnir frá höftum til greiðslu gjaldeyris til kröfuhafa, líkt og áformað er í tillögum þeirra að nauðasamningi, er talið eðlilegt að þau greiði fyrir slíkan forgang í formi skattlagningar.
Forsætis- og fjármálaráðherra hafa ítrekað að mikilvægt sé að tryggja jafnræði við losun hafta. Útgöngugjaldið er því yfirlýsing af hálfu íslenskra stjórnvalda um að mögulegar greiðslur úr slitabúunum yfir landamæri verði meðhöndlaðar með sama hætti og gildir um aðra íslenska lögaðila. Skiptir þá engu máli hvort greiðslurnar eru framkvæmdar í krónum eða gjaldeyri enda eigi kröfuhafar aðeins kröfur í krónum á íslensk slitabú.