Alls falla um 66,8 milljónir króna á ríkið í málsvarnarkostnað vegna markaðsmisnotkunarmálsins svonefnda gegn Landsbankamönnum. Dómur féll í málinu í morgun þar sem þrír af fjórum ákærðu voru sakfelldir. Þeirra á meðal er Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri bankans. Heildarmálskostnaður nemur um 118 milljónum króna.
Málsvarnarlaun lögmanna Sigurjóns, Ívars Guðjónssonar, fyrrum forstöðumanns eigin fjárfestinga bankans og Júlíusar Steinars Harðarsonar, starfsmanns deildarinnar, sem allir voru sakfelldir í málinu, verða greidd af hálfu úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun verjanda Sindra Sveinssonar, fyrrum starfsmanns eigin fjárfestinga bankans, sem sýknaður var í málinu, verða greidd að fullu úr ríkissjóði.
Sigurður G. Guðjónsson var verjandi Sigurjóns í málinu og nemur reikningur hans rúmum 39 milljónum króna með virðisaukaskatti. Sagði hann upphæðina þó vera nokkuð hærri við aðalmeðferð málsins, eða 46 milljónir króna, fyrir utan virðisaukaskatt, þar sem hann hefði varið um 2.200 vinnustundum í málið. Falla alls um 19,5 milljónir króna á ríkið vegna Sigurjóns.
Reikningur verjanda Ívars, Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar, nemur þá tæpum 44 milljónum króna og falla þar um 22 milljónir króna á ríkið.
Helgi Sigurðsson var verjandi Júlíusar en reikningur hans nemur rúmum 19 milljónum króna. Þá nemur þóknun annarra verjenda hans á rannsóknarstigi málsins alls um 843 þúsund krónum. Tæpar 10 milljónir verða því greiddar úr ríkissjóði í málsvarnarlaun vegna þessa.
Þá verða málsvarnarlaun verjanda Sindra, Reimars Péturssonar, auk annarra verjenda á rannsóknarstigi, að fullu greidd úr ríkissjóði. Nemur reikningurinn alls um 14,8 milljónum króna.
Fjórmenningarnir voru ákærðir fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008. Voru þeir sakaðir um að hafa handstýrt verðmyndun hlutabréfa í Landsbankanum og með því blekkt fjárfesta, kröfuhafa, stjórnvöld og samfélagið í heild. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að viðskiptin sem um ræðir hafi verið framkvæmd að undirlagi Sigurjóns og var hann því sakfelldur.
Líkt og áður hefur komið fram var Sigurjón dæmdur í 12 mánaða fangelsi, þar af voru níu mánuði skilorðbundnir. Þeir Ívar og Júlíus voru dæmdir í níu mánaða fangelsi en þar af voru sex mánuðir skilorðsbundnir. Sindri var sýknaður.