Meðalúttekt með íslensku debetkorti úr hraðbanka er 11.200 krónur en 16 þúsund krónur með íslensku kreditkorti. Frá árinu 2006 hefur hraðbönkum á Íslandi fækkað úr 260 í 187 og eru tæplega 1.700 manns á hvern hraðbanka í dag. Á árinu 2013 sóttu Íslendingar sér alls 32 milljarða króna úr hraðbönkum með debetkortum og 14 milljarða með kreditkortum. Auk þess sóttu erlendir aðilar 11 milljarða með greiðslukortum.
Þetta kemur fram í ritinu Fjármálainnviðir sem Seðlabanki Íslands gaf út í dag. Borið saman við Danmörku eru svipað margir á hvern hraðbanka en töluvert fleiri eru um hvern á hinum Norðurlöndunum. Í Noregi Svíþjóð eru 2.400 til 2.800 manns um hvern hraðbanka en í Finnlandi um 3.400 manns. Bent er á að hraðbankar séu dýrir í innkaupum og rekstri og miðað við þá staðreynd að Íslendingar nota reiðufé einna minnst allra þjóða ættu fleiri íbúar að vera um hvern hraðbanka.
Bankar hafa að undanförnu verið að breyta hraðbönkum sínum þannig að 500 krónu seðlar hafa verið teknir úr þeim mörgum en öðrum hefur verið breytt þannig að þegar viðskiptavinur biður um ákveðna fjárhæð fær hann hana afgreidda með sem fæstum seðlum. Þannig fær sá sem tekur út 5.000 krónur einn seðil í stað sex seðla áður, þ.e. fjóra 1... krónu seðla og tvo 500 krónu seðla. Hefur þetta leitt til þess að 500 krónu og 1.000 krónu seðlum hefur fækkað í umferð.
Enn sem komið er er 10.000 króna seðillinn þó ekki í hraðbönkum. Seðillinn var settur í umferð í október 2013 og var tilgangurinn með útgáfu hans að gera greiðslumiðlun á Íslandi hagkvæmari, m.a. með því að fækka seðlum í umferð. Að sögn Seðlabankans hefur innleiðing hans gengið vel og leitt til þess að samsetning seðla hefur breyst nokkuð. Nú eru um 11 milljarðar af 10.000 krónu seðlum í umferð og er hlutur hans orðinn um 24% af heildarverðmæti seðla í umferð. Hlutur 5.000 krónu seðilsins hefur hins vegar minnkað úr 86% í 64%.
Frétt mbl.is: 500 krónu mynt í stað seðils