Samgöngustofnunin í Danmörku lagði í dag fram kvörtun til lögreglunnar vegna leigubílaþjónustunnar Uber. Er starfsemin sögð vera ólögleg.
Þjónustan er eingöngu í boði í Kaupmannahöfn og nefnist Uber Black en það er einskonar lúxustegund þjónustunnar þar sem einungis er boðið upp fínni bíla. Þá stendur einnig til að stofnaUberPOP þjónustuna, sem er ódýrari. Talsmaður samgöngustofnunarinnar sagði að forsvarsmenn Uber hefðu ekki sett sig í samband við stofnunina og hefðu því ekki fengið leyfi fyrir starfseminni.
Fyrirtækið var stofnað á árinu 2009 og virkar þjónustan þannig að viðskiptavinir geta pantað sér bíl í gegnum app í símanum, fyrir mun lægri fjárhæð en það kostar að taka hefðbundinn leigubíl. Höfuðstöðvar Uber eru í San Francisco í Bandaríkjunum og er fyrirtækið nú með starfsemi í um 200 borgum í 45 löndum.
Félög leigubílstjóra í Evrópu og Bandaríkjunum hafa mótmælt þjónustunni harðlega og segja að Uber fari ekki eftir gildandi lögum.