Fimmtungur af skatti allra lögaðila

Sjávarútvegsfyrirtæki greiddu 28 milljarða í opinber gjöld á árinu 2013.
Sjávarútvegsfyrirtæki greiddu 28 milljarða í opinber gjöld á árinu 2013. mbl.is/RAX

Opinber gjöld sjávarútvegsfyrirtækja á árinu 2013 námu alls um 28 milljörðum króna. Veiðigjaldið vó þar þyngst eða um 9,7 milljörðum króna og skiptist þannig að 4,9 milljarðar voru almennt veiðigjald og 4,8 milljarðar sérstakt veiðigjald.

Á árinu 2010 urðu veiðigjöldin í fyrsta sinn hærri en tekjuskatturinn og hafa þau verið það alla tíð síðan. Tekjuskattur sjávarútvegsfyrirtækja á árinu 2013 nam um 8,7 milljörðum króna samanborið við 5,5 milljarða árið 2012 en meðaltal síðustu tíu ára er 2,8 milljarðar á ári.

Þetta kemur fram í nýtti skýrslu Íslandsbanka um íslenska sjávarútveginn.

Frá árinu 2008 hafa sjávarútvegsfyrirtækin þó verið að nýta sér uppsafnað tap sem kom í kjölfar hruns íslenska efnahagskerfisins, en slíkt tap má færa á móti hagnaði þegar tekjuskattur er reiknaður út. Sum fyrirtækjanna hafa fullnýtt þetta uppsafnaða tap og hafa því síðastliðin tvö ár greitt mun hærri tekjuskatt en árin áður. Minnkandi uppsafnað tap skýrir því að hluta til aukningu í skattgreiðslum.

21,5% af skatti allra lögaðila

Tekjuskattur sjávarútvegsfélaga sem hlutfall af heildartekjuskatti lögaðila hefur aukist úr 4,7% í 21,5% frá árinu 2009. Sjávarútvegurinn skilar ríkinu því rúmlega fimmtungi af þeim tekjuskatti sem ríkið innheimtir frá lögaðilum.

Samkvæmt lögum um veiðigjöld sem samþykkt voru sumarið 2012 er veiðigjald lagt á útgerðir með tvennum hætti. Annars vegar er almennt veiðigjald og hins vegar sérstakt veiðigjald. Almenna gjaldinu er ætlað að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og vinnslu. Sérstaka veiðigjaldinu er ætlað að tryggja þjóðinni hlutdeild í þeim umframarði sem nýting takmarkaðrar auðlindar getur skapað.

9,5 milljarðar á næsta ári

Þann 23. apríl síðastliðinn tilkynnti atvinnuvegaráðuneytið frumvarp um breytingu á lögum um veiðigjöld sem gildir fyrir næsta fiskveiðiár. Að teknu tilliti til afkomu í sjávarútvegi er um sambærilega álagningu veiðigjaldanna að ræða og á yfirstandandi fiskveiðiári. Áætlanir ráðuneytisins eru að veiðigjöld muni nema 9,5 milljörðum á næsta fiskveiðiári þegar búið er að taka tillit til frádráttarliða. Reiknað er með að þessir liðir muni lækka brúttó
veiðigjöldin um 1,5 milljarða.

Heildarfjárhæð veiðigjaldanna er ákveðin þannig að hún sé samtala 35% af hagnaði ársins 2012 án áhrifa tekjuskatts af veiðum og 20% af hagnaði fiskvinnslu. Áætlað er því að tekjur ríkisins muni nema um 8 milljörðum á komandi fiskveiðiári. Fjárlög ársins 2014 gera ráð fyrir að tekjur af veiðigjöldum muni nema 9,77 milljörðum.

Sjávarútvegsfyrirtæki greiða 21,5% af skatti allra íslenskra lögaðila.
Sjávarútvegsfyrirtæki greiða 21,5% af skatti allra íslenskra lögaðila. mbl.is/Rax
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK