Stefán Kjærnested var í gær dæmdur til að greiða Landsbankanum 50 milljón króna skuld vegna sjálfskuldarábyrgðar er hann tókst á hendur gagnvart Landsbanka Íslands vegna 80 milljóna króna láns til félags í hans eigu, Húsaleigu ehf.
Félagið var úrskurðað gjaldþrota hinn 5. febrúar sl. og var skiptum í því lokið 3. júlí án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur sem námu alls rúmum 707 milljónum króna.
Stefán var stofnandi og framkvæmdastjóri félagsins sem átti meðal annars iðnaðarhúsnæði í Dalshrauni og Funahöfða sem breytt hafði verið í leiguíbúðir sem m.a. voru leigðar út í samstarfi við starfsmannaleiguna IntJob, móðurfélag Húsaleigu ehf.
Málsvörn Stefáns byggðist meðal annars á því að hann væri eignalaus, fyrir utan þann hlut sem hann ætti í Húsaleigu ehf., og svigrúm hans til að standa við skuldbindingar sínar við Landsbankann samkvæmt sjálfskuldarábyrgðinni væri því ekkert. Þá sagði að félagið hefði staðið í skilum með skuldbindingar sínar fyrir fjármáláfallið 2008 en í kjölfar þess hruns sem varð á fjármálamörkuðum hafi rekstur fyrirtækisins jafnframt hrunið. Um leið hafi Stefán þar með að mestu orðið tekjulaus.
Ekki náðist í Stefán við vinnslu fréttarinnar.
Áður hefur verið fjallað slæman aðbúnað í fyrrnefndum leiguíbúðum en í janúar sl. tók blaðamaður mbl. viðtal við íbúa í Dalshrauni sem leigði þar 10 fermetra herbergi fyrir 55 þúsund krónur á mánuði.
Hann sagði að engir leigusamningar væru gerðir, heldur þyrfti einungis að greiða tvo mánuði fram í tímann þar sem helmingurinn væri tryggingargjald. Þá sagði hann að leigjendur hefðu áður aðeins mátt greiða leiguna í beinhörðum peningum sem öryggisvörður sá gjarnan um að koma og innheimta. Húsnæðið var þá ekki skráð sem íbúðarhúsnæði og leigjendur áttu því ekki rétt á leigubótum.
Lýst var hvernig leigjendur hefðu gefist upp á því að biðja eigandann um að koma einhverju í lag og að flestir reyndu því frekar að gera við hlutina sjálfir. Hann sagði ómögulegt að taka á móti fjögurra ára gömlum syni sínum sem hann á með íslenskri konu og deilir forræði með í Dalshraunið, þar sem félagsmálayfirvöld taki strangt á því ef þau komast að því að börn dvelji í slíku húsnæði. Þá sagðist hann skammast sín fyrir að búa í Dalshrauni. „Hér er skítugt, það er vond lykt hérna og vinir mínir sem af einhverjum ástæðum hafa þurft að koma við hrista höfuðið þegar þeir sjá aðstæðurnar,“ sagði hann.
Fjallað var um aðbúnað erlendra verkamanna á Íslandi í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 á árinu 2007 þar sem meðal annars var farið yfir aðstæður í íbúðum í eigu Húsaleigu ehf. Sendi félagið í kjölfarið frá sér yfirlýsingu, þar sem kemur fram kom að lögmanni fyrirtækisins hafði verið falið að leggja fram kæru á hendur forsvarsmönnum sjónvarpsþáttarins og skorað var á þá að hætta við umfjöllunina. Ekki var hins vegar orðið við beiðninni og ekki varð heldur neitt af málshöfðuninni.
Frétt mbl: Lítið pláss fyrir sjálfsvirðingu