Stefnt að samruna DV og Pressunnar

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Pressan ehf. hefur náð samkomulagið við eigendur meirihluta hlutafjár í útgáfufélaginu DV ehf. um kaup á ráðandi hlut í félaginu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Þar með sé útgáfa DV og dv.is tryggð til framtíðar og verður DV áfram rekið sem sjálfstæður og óháður fjölmiðill eins og verið hefur. Pressan ehf. er móðurfélag Vefpressunnar og vefmiðlanna Pressunnar, Eyjunnar og Bleikt.

„Með kaupunum er Pressan ehf orðin eigandi ríflega tveggja þriðju hlutafjár í DV ehf og hafa viðskiptin verið tilkynnt lögum samkvæmt til Samkeppniseftirlitsins og Fjölmiðlanefndar. Kemur samruninn ekki til framkvæmda fyrr en Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaupin fyrir sitt leyti. Kaupin eru gerð í góðu samstarfi við eigendur DV undanfarin ár og verður Þorsteinn Guðnason, núverandi stjórnarformaður, áfram í stjórn félagsins og Steinn Kári Ragnarsson framkvæmdastjóri. Hallgrímur Thorsteinsson verður áfram ritstjóri blaðsins,“ segir í tilkynningunni.

Þar segir ennfremur að Björn Ingi Hrafnsson, stjórnarformaður Pressunnar og Vefpressunnar, verði útgefandi DV og stjórnarformaður fyrirtækisins. Þegar samþykki Samkeppniseftirlitsins liggi fyrir verði nánari grein gerð fyrir margvíslegum áformum til „að treysta rekstur blaðsins og sækja fram með nýstárlegum hætti til framtíðar. Jafnframt verður gerð grein fyrir eignarhaldi eftir þessar breytingar í samræmi við lög um Fjölmiðlanefnd.“

DV geti ekki komið áfram út án samstarfs

Fram kemur meðal annars í erindi sem sent hefur verið til Samkeppniseftirlitsins að mat forsvarsmanna DV sé að blaðið geti ekki komið áfram út að óbreyttu og tryggja þurfi því varanlegan rekstrargrundvöll með samstarfi við aðra aðila. Þar segir ennfremur:

„Eins og Samkeppniseftirlitinu er kunnugt hafa staðið yfir deilur milli meirihluta og minnihluta hluthafa í DV á liðnum misserum. Meirihluti eigenda hlutafjár DV, sem eru seljendur hlutafjárins skv. samningi aðila, hafa um langt skeið haft áhyggjur af útgáfunni. Hafa eigendur meirihluta hlutafjár leitað leiða til að selja sinn hlut eða gera breytingar á yfirstjórn blaðsins. Eftir ítrekaðar tilraunir til að selja ráðandi hlut í blaðinu til þáverandi ritstjóra og framkvæmdastjóra án árangurs, var ákveðið að sækjast eftir auknum áhrifum í stjórn félagsins.

Á aðalfundi DV sem haldinn var í tvennu lagi í lok ágústs og byrjun september sl. var skipt um stjórn í DV og hafa nýr ritstjóri og framkvæmdastjóri tekið til starfa. Vilji seljenda stóð til þess að tryggja rekstrargrundvöll félagsins með stækkun þess, í gegnum kaup, samruna eða ef þyrfti með sölu hluta sinna. Í þeim tilgangi leituðu þeir til nokkra aðila og áttu óformlegar viðræður, þ.m.t. kaupanda. Leiddi það til þess að nú hefur kaupsamningur aðila verið undirritaður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK