Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir líklegt að það muni draga enn frekar til tíðinda í haftamálum áður en lagt um líður.
„Svigrúmið margumrædda vegna uppgjörs slitabúa bankanna, sem eru í eigu kröfuhafanna margumræddu, er þegar byrjað að myndast með skattlagningu sem nemur tugum milljarða á ári og telja má líklegt að það dragi enn frekar til tíðinda í haftamálum áður en langt um líður,“ sagði Sigmundur þegar hann ávarpaði haustfund miðrstjórnar Framsóknarflokksins í dag.
Hann bætti við, að næstu dagar myndu hins vegar að mestu snúast um fjárlagavinnuna sem nú væri í fullum gangi.
Morgunblaðið hefur greint frá því, að til standi að leggja á sérstakan skatt vegna allra greiðslna slitabúa föllnu bankanna úr landi til erlendra kröfuhafa. Samkvæmt heimildum blaðsins er gert ráð fyrir því í fyrirliggjandi tillögum ráðgjafa stjórnvalda um losun fjármagnshafta að útgöngugjaldið verði 35%. Mun gjaldið einnig ná til aflandskróna í eigu erlendra aðila eftir að þeim verður skipt í skuldabréf í erlendri mynt til mjög langs tíma.
Í ræðu sinni varð Sigmundi tíðrætt um þau tækifæri sem þjóðin standi frammi fyrir.
„Það að viðurkenna hversu góð staðan er á Íslandi og hversu miklar framfarir hafa orðið felur ekki í sér að við sættum okkur við það sem vantar uppá, þvert á móti það minnir okkur á að við getum leyst vandamálin, við getum gert enn betur. Þess vega eigum við líka að hafa trú á tækifærum Íslands. Forsenda þess að nýta tækifæri Íslands og efla kosti íslensks samfélags er að við trúum á landið og þá framtíð sem það getur skapað. Þjóð sem hefur ekki trú á sjálfri sér nær ekki árangri,“ sagði Sigmundur.
Hann lauk ræðu sinni á eftirfarandi hátt:
„Ísland er frábært land, íslenska þjóðin er frábær þjóð og ef hún nýtir tækifærin og hefur trú á sér og því að framtíðin á Íslandi verði enn betri, þá verður hún það.“