Lyf sem fengið hafa markaðsleyfi frá árinu 2007 eru mun minna notuð hér á landi en í nágrannalöndum á meðan eldri lyf eru notuð í svipuðum mæli. Ljóst þykir að slík staða samrýmist ekki markmiðssetningu stjórnvalda um að íslenskt heilbrigðiskerfi eigi að vera í fremstu röð í heiminum.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu þar sem umhverfi leyfisskyldra lyfja er kortlagt. Gylfi Ólafsson, hagfræðingur, vann skýrsluna fyrir Frumtök, samtök frumlyfjaframleiðenda. Tekið er þó fram að ómögulegt sé að meta áhrifin sem fyrrnefnt ástand hefur á kostnað heilbrigðiskerfisins eða útkomu sjúklinga. Þá er einnig ekki hægt að draga í sundur hvort þetta sé vegna samdráttar í heilbrigðisútgjöldum eða hins svokallaða leyfisskyldukerfis.
Leyfisskylt lyf er það lyf sem hlotið hefur samþykkti Lyfjafgreiðslunefndar til að teljast leyfisskylt. Þetta skiptir máli vegna þess að þegar lyf hefur hlotið leyfisskyldu er það samkvæmt skilningi bæði velferðarráðuneytisins og Lyfjagreiðslunefndar komið með greiðsluþátttöku.
Dýr og vandmeðfarin lyf flokkast undir þessa skilgreiningu eru til dæmis nýir meðferðarkostir gegn gigt, MS og krabbameini þar áberandi. Í skýrslunni er bent á að Sjúkratryggingar túlka lög um leyfisskyld lyf á annan hátt en aðrar ríkisstofnanir á borð við Velferðarráðuneytið. Telja Sjúkratryggingar ekki að samþykkt leyfisskyldu feli í sér ákvörðun um greiðsluþátttöku heldur telur að um tvær aðskildar ákvarðanir sé að ræða. Lyfjagreiðslunefnd er á öndverðum meiði og hefur ráðuneytið jafnframt hafnað þessari túlkun og þrýst á breytt verklag. Er þetta sagt óviðunandi ástand í skýrslunni. Á takmörkun á greiðsluþátttöku ekki að vera framkvæmd á vegum nefnda og ráða innan Sjúkratrygginga, heldur innan ramma Lyfjagreiðslunefndar.
Sextíu og sjö lyf voru á listanum yfir leyfisskyld lyf þegar lögin voru samþykkt árið 2012. Í dag eru þau 63 en frá þeim tíma hafa lyf bæði bæst við og verið felld brott af listanum þar sem þau þóttu hvorki dýr né vandmeðfarin. Af þessum lyfjum eru upplýsingar tiltækar fyrir 8 lyf sem hafa hlotið samþykki frá Lyfjagreiðslunefnd. Þar af kostar ódýrasta meðferðin 200 þúsund en sú dýrasta rúmar 13 milljónir á ári. Fjöldi sjúklinga er á bilinu 1–20 fyrir hvert lyf.
Áhugavert er að útgjöld á Íslandi eru áberandi lægri en hjá hinum Norðurlöndunum hvað ný lyf varðar, þ.e. lyf sem hafa fengið markaðsleyfi frá árinu 2007 en þetta er talið endurspegla seigju kerfisins og að nýrri lyf séu gjarnan fyrir þrengri ábendingar. Er niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu á síðustu talinn sjást í þessu.
Í skýrslunni er ítrekað að nauðsynlegt sé að skapa rými fyrir ný lyf og hætta þar með notkun eldri lyfja. Þá er jafnframt þarft að fjármagna það með sparnaði annars staðar.