Raftækjarisinn Sony sem hefur verið einn af sex aðalstyrktaraðilum Alþjóðaknattspyrnusambandins FIFA ætlar ekki að endurnýja samning sinn við sambandið. Ákvörðunin kemur í kjölfar frétta af spillingu innan FIFA, meðal annars í því hvernig var staðið að því að velja löndin sem halda næstu heimsmeistarakeppnir.
Fyrr í þessum mánuði tilkynnti flugfélagið Emirates að það myndi ekki halda áfram samstarfi sínu. Nú herma heimildir Reuters-fréttastofunnar að Sony ætli heldur ekki að endurnýja styrktarsamning sinn við FIFA. Sony hefur styrkt sambandið í átta ár og er núgildandi samingur þeirra talinn vera 280 milljóna dollara virði.
Talsmaður FIFA svaraði fyrirspurnum á þá leið að samningur sambandsins við FIFA gildi út þetta ár og að samningaviðræður standi yfir um framhaldið.
Bandaríska blaðið The Washington Post segir að vísbendingar séu um að annar stór styrktaraðili FIFA, Coca Cola, ætli að fylgja fordæmi Sony og Emirates. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafi kallað eftir gegnsæi í störfum FIFA og sagst hafa orðið fyrir vonbrigðum með hvernig sambandið hefur meðhöndlað rannsókn sem var gerð á spillingu innan þess.
FIFA og Sepp Blatter, forseti sambandsins, hafa í gegnum tíðina verið sökuð um spillingu. Nú síðast hafa nokkrir leiðandi fulltrúar evrópskrar knattspyrnu kallað eftir því að rannsókn sem Michael García, fyrrverandi saksóknari frá Bandaríkjunum, gerði á starfsemi FIFA verði birt í heild sinni. García sjálfur brást reiður við því þegar FIFA birti aðeins valda kafla úr henni og hafa forsvarsmenn sambandsins verið sakaðir um kattaþvott.