Miðað við nýjustu verðbólgutölur er sýna að ársverðbólgan er komin niður í eitt prósentustig mun aðhald peningastefnunnar aukast ef vextir lækka ekki enn frekar. „Seðlabankinn lækkaði stýrivexti á síðasta vaxtaákvörðunarfundi þar sem hann taldi að aðhaldið væri orðið full mikið og ég tel því að bankinn þurfi að bregðast við nýjustu verðbólgutölum með vaxtalækkun,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins og bætir við að svigrúm sé fyrir 50 til 75 punkta vaxtalækkun ef viðhalda á óbreyttu raunvaxtastigi.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun hefur verðbólga, mæld á tólf mánaða tímabili, ekki verið jafn lítil á Íslandi í sextán ár eða frá því í október 1998 er hún mældist 0,9%.
Verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands gera ráð fyrir 2½% prósentustiga árlegri verðbólgu og er spá hans til ársloka 2017 ágætlega í samræmi við það, þar sem gert er ráð fyrir 2,6 prósent meðaltalsverðbólgu. Ef verðbólga víkur hins vegar meira en 1½ prósentu í hvora átt frá markmiðinu ber Seðlabankanum að gera ríkisstjórninni opinberlega grein fyrir ástæðum þess og leiðum til úrbóta.
Ásdís telur nýjustu verðbólgutölur þó vera jákvæðar þar sem krónan hefur verið stöðug auk þess sem innflutt verðbólga hefur verið að ganga niður. Þá má sjá að einhver áhrif koma nú fram vegna fyrirhugaðra breytinga á vörugjöldum um áramótin. Þrátt fyrir að þróunin hafi verið jákvæð eru hins vegar hættur framundan. „Við gætum séð sterkari áhrif húsnæðisliðar þegar á líður auk einhverra neysluáhrifa og þar af leiðandi verðlagsáhrifa vegna skuldaleiðréttingaraðgerða stjórnvalda. Þá ríkir óvissa um niðurstöðu kjarasamninga og ljóst að framundan er erfiður vetur hvað það varðar,“ segir Ásdís.
Hún telur ólíklegt að Ísland sé á leið inn í verðhjöðnunartímabil. „Ekki eins og er en hins vegar er verðbólgan komin í neðri vikmörk Seðlabankans og ef hún fer neðar ber Seðlabankanum skylda að bregðast við með greinagerð til stjórnvalda um leiðir til úrbóta“ segir hún. „Hjaðni verðbólgan enn frekari á komandi misserum þýðir það einfaldlega að Seðlabankinn þurfi að lækka vexti enn frekar.“
Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabanka Íslands er þann 10. desember næstkomandi. Við síðustu vaxtaákvörðun voru stýrivextir lækkaðir um 0,25 prósentur.