„Ég heiti Björgólfur Thor Björgólfsson og ég er samningafíkill.“ Þannig hefst bók sem Björgólfur Thor hefur ritað ásamt Andrew Cave og kom út í dag.
Þar fjallar Björgólfur Thor um hvernig hann varð milljarðamæringur, tapaði því og byggði upp veldi á nýjan leik og hvað hann hefur lært á þessum síðustu árum.
Í bókinni fjallar hann um uppvaxtarárin, Rússlandsárin, Búlgaríu og áratuginn fyrir hrun. Hann fer yfir einkavæðingu bankanna og hrunið 2008 og það sem fylgdi í kjölfarið. Í lok bókarinnar segist Björgólfur Thor persónulega telja að illa hafi verið farið með Geir H. Haarde í leikhúsi stjórnmálanna og vísar þar til Landsdóms. Hann segir að þeir eigi það sameiginlegt, hann og Geir að hafa gert hluti sem þeir hafi álitið góða hugmynd á sínum tíma.
Björgólfur Thor talar um það þegar hann bað íslensku þjóðina afsökunar á sínum þætti í þeirri eigna- og skuldabólu sem að lokum leiddi til hruns íslenska bankakerfisins þá hafi hann átt von á því að fleiri myndu fylgja hans fordæmi og biðjast afsökunar. Það hafi hins vegar ekki enn gerst. Það valdi því að enn hafi ekki náðst sátt hér á landi.
En þetta tilheyri nú sögunni og hann sé þakklátur fyrir að hafa getað staðið við orð sín og greitt lánadrottnum sínum líkt og hann hafi samið um.
Bók Björgólfs Thors kemur út í dag og mun mbl.is væntanlega birta fleiri fréttir úr bókinni á næstu dögum.