Óvissa er um framkvæmdir við risagróðurhús undir tómatrækt í Grindavík þar sem fjármögnun hefur ekki tekist en framkvæmdirnar eru taldar kosta um 40 til 50 milljónir evra eða um 7 milljarða íslenskra króna.
Mbl.is greindi frá því í janúar sl. að vonir stæðu til að hefja framkvæmdir strax í febrúar. Áætlað er að byggja tvö 7,5 hektara gróðurhús auk þrjú þúsund fermetra tengi- og þjónustubyggingar. Til þess að setja stærðina í samhengi má segja að gróðurhúsin muni þekja svipað stórt svæði og 20 fótboltavellir.
Hollenska fyrirtækið EsBro stendur fyrir framkvæmdunum en Kristján Eysteinsson, starfsmaður þess er umsjónarmaður verkefnisins. Hann segir að ekki sé búið að blása verkefnið af, en telur að það muni í það minnsta tefjast fram yfir áramót. „Það verður ekki hafist handa fyrr en allir samningar liggja fyrir. Sú vinna er enn í gangi hjá EsBro,“ segir hann. „En á meðan það liggja ekki fyrir undirritaðir samningar við fjárfesta gerist ekkert í framkvæmdum.“
Drög að orkusölusamningi við HS orku upp á 32 megavött fyrir lýsingu og hitun í gróðurhúsunum liggur fyrir auk ívilnanasamnings vegna nýfjárfestingar við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Ekki verður þó heldur gengið frá þeim fyrr en samningar við fjárfesta liggja fyrir.
Aðspurður hvers vegna fjármögnunin hafi tafist segir hann ýmislegt koma þar til og þar á meðal gjaldeyrishöftin. „Þau eru síst til þess fallin að liðka fyrir erlendri fjárfestingu. Þetta er bara Akkilesarhæll sem við Íslendingar þurfum að kljást við,“ segir Krisjtán.
Hann segir erlenda aðila þó hafa áhuga á Íslandi og telji það góðan stað til ræktunar grænmetis, meðal annars vegna hagstæðs orkuverðs. „En eitt er að landið sé spennandi og góður kostur. Aðstæðurnar þurfa að vera af sama tagi og umhverfið þarf að vera hagstætt,“ segir hann.
Spurður hvort líkur séu á að ekkert verði af verkefninu segir hann að áfram verði unnið að því en auðvitað hljóti að koma að því á einhverjum tímapunkti að menn hugsi sig um. „Það eiga engin fyrirtæki endalausan tíma í að reyna koma svona verkefni á kortið. Ef aðstæður reynast þeim ekki í hag verður ákvörðun tekin um að hætta við,“ segir hann. „En sú ákvörðun liggur ekki fyrir og er ekki í sjónmáli á þessum tímapunkti,“ segir Kristján.
Frétt mbl.is: Framkvæmdir við risagróðurhús í Grindavík á næsta leiti