Hægt er að blekkja grunlausa neytendur með ýmsum hætti. Áttu að eyða meira? Borða hraðar? Brellurnar eru óendanlegar og kostulegt getur verið að koma auga á þær.
Þú gætir tekið eftir góðri lykt í verslunum í kringum hátíðirnar. Að öllum líkum er það ekki einungis vegna jólahreingerninga heldur gætu sniðugir verslunareigendur hafa gripið til þess að sprauta örlítilli sítrónulykt yfir rekkana til þess að halda neytendum við efnið.
Markaðsfræðingar eru í auknum mæli farnir að einblína á lyktarskyn neytenda og sýna ýmsar rannsóknir fram á að lykt getur haft áhrif á kaupmynstur. Til dæmis á fólk í húsnæðisleit að vera líklegra til kaupa ef ilmurinn af nýbökuðu bakkelsi fyllir vitin þegar komið er inn fyrir dyrnar. Þá er sagt að fólk sé líklegra til að fjárfesta í gamaldags vörum ef lyktin af talkúmi, þ.e. krítarlykt, er umlykjandi, þar sem henni á að fylgja einhvers konar nostalgía.
Lyktin eruþó einungis eitt þeirra skilningarvita sem spilað er með en einnig er hægt að hafa áhrif á búðargesti með snertingu, tónlist og litavali. Í rannsókn sem birt var í Harvard Business Review kom t.a.m. fram að bifreiðarkaupendur væru líklegri til að borga allt að 28 prósent meira ef þeir sitja í mjúkum stólum en hörðum - harðir stólar búa til harðari samningamenn. Eins er það ekki tilviljun að fyrirtæki sem einblína á traust, líkt og t.d. tryggingafyrirtæki, hafa vörumerki sín blá - þar sem liturinn kallar þá tilfinningu fram. Merkingar sem er eiga að hvetja til hvatvísi, líkt og t.d. útsöluskilti eru hins vegar gjarnan höfð í rauðum lit.
Rannsóknir hafa sýnt fram á að um 95 prósent kaupákvarðana megi rekja til undirmeðvitundarinnar en einungs 5 prósent eru fullkomlega meðvituð og fyrirframákveðin kaup. Eru það þessi 95 prósent sem þykir auðvelt að spila með.
Samkvæmt rannsókn sem taugafræðingurinn Alan Hirsch gerði voru neytendur um 84 prósent líklegri til að borga 10 dollurum meira fyrir sama parið af Nike-íþróttaskóm ef rýmið var fyllt með réttri lykt. Þá á til dæmis blómalykt að fá fólk til þess að staldra lengur við og skoða í búðum en lyktin af graskersböku eða Lofnarblómum á að koma karlmönnum til. Hefur þetta verið nýtt í verslunum með kynlífsleikföng þar sem karlmenn þykja þar af leiðandi líklegri til að eyða meira. Í Bloomingdales-versluninni er t.a.m. mismunandi lykt í mismunandi deildum búðarinnar; kókoslykt í sundfatadeildinni, liljulykt í nærfatadeildinni og lykt af barnapúðri í barnadeildinni.
Þá spila margir skyndibitastaðir hraða og taktfasta tónlist í bakgrunninum og fá þannig gesti til að borða hraðar og fara fyrr, en fínni veitingastaðir sem vilja halda gestum lengur eru líklegri til að setja rólega tónlist á fóninn.
Þá er það ekki tilviljun að fartölvurnar í Apple-búðum séu oftast hálfopnar, eða um 70 gráður, þar sem talið er líklegt fólk kaupi tölvurnar frekar, hafi það snert þær.