46.507.142.739 krónur er skuld FI fjárfestinga við kröfuhafa sína en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta 16. desember 2011. Engar eignir fundust í búinu og lauk skiptum 26. nóvember síðastliðinn. FI fjárfestingar var í eigu Hannesar Smárasonar og var nokkurs konar móðurfélag hans.
Félagið FI fjárfestingar hét áður Primus og voru eignir þess meðal annars íslenska félagið Oddaflug ehf. sem aftur átti hollenska félagið Oddaflug BV. Stærsta eign Oddaflugs BV var hlutur í FL Group en Hannes var um hríð forstjóri félagsins. Stærsta eign FL Group var Icelandair sem selt var í desember 2006 og sjálfur lét Hannes af störfum sem forstjóri 4. desember 2007 eftir viðamiklar breytingar á eignarhaldi félagsins. Nafni FL Group var breytt í Stoðir í júlí 2008 en þá átti félagið um 40% hlut í Baugi.
FI fjárfestingar var með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2011 tekið til gjaldþrotaskipta. Skipti hafa tekið góðan tíma en engar eignir fundust í búinu og var skiptum í því lokið 26. nóvember 2014 samkvæmt 155. gr. laga nr. 21/1991 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur, auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta.
Lýstar kröfur voru rúmir 46 milljarðar íslenskra króna og 486 þúsund sterlingspund.