„Slitastjórnin telur að kröfuhafi sem ákveður að kaupa sig inn í slitameðferð sem er í gangi, geri það varla til þess að hleypa skiptunum í annan farveg en þann sem kröfuhafar kjósa að hafa,“ segir Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis en fyrr í dag var greint frá því að Heiðar Már Guðjónsson, hluthafi í Glitni hf. hafi krafist gjaldþrotaskipta á félaginu.
Steinunn segir það skipta máli að Heiðar Már sé nýr kröfuhafi, sem keypt hafi kröfur fyrir um tveimur mánuðum síðan. Þá sé hann ekki stór hluthafi þegar bú félagsins er virt heildstætt, en Heiðar á almennar kröfur í búið að fjárhæð 3.126.694 krónur. „Þetta er lág krafa í hlutfalli við heildarfjárhæð búsins, eða um 0,001% af heildarfjárhæð krafna,“segir Steinunn. Að hennar sögn hafa aðrir kröfuhafar aðra skoðun á því hvernig beri að ljúka skiptunum. Hún bætir við að hún skilji ekki hvað Heiðari gangi til með kröfu sinni um gjaldþrotaskipti.
„Hann virðist telja að hann hljóti fljótari útgreiðslu ef bankinn fer í gjaldþrotaskipti. Ég er algjörlega ósammála því. Eins og flestum er kunnugt um féll nýlega Hæstaréttardómur þar sem því var slegið föstu að skiptastjórum sé heimilt að borga út í erlendri mynt, hvort sem um er að ræða gjaldþrotameðferð eða nauðasamning. Það þarf í báðum tilvikum sömu undanþágur frá fjármagnshöftunum.“
Steinunn segir að slitastjórninni hafi ekki borist afrit af beiðni Heiðars, en að hún muni bregðast við henni þegar þar að kemur.
Segist hún heldur ekki skilja ummæli Heiðars um að slitastjórnin sé að fara út fyrir hlutverk sitt. „Ég átta mig ekki á því hvað hann á við. Hlutverk slitastjórnarinnar er að hámarka virði eigna, sem við höfum gert gagnrýnislaust. Svo á hún að úthluta eignum til kröfuhafa, það er ljóst að mikill meirihluti kröfuhafa vill fá úthlutun í erlendri mynt, enda á búið mjög mikið af erlendri mynt. Sú ósk verður uppi hvort sem um gjaldþrot eða nauðasamninga er að ræða. Hvernig við ættum að vera komin út fyrir okkar valdsvið er mér alveg hulið,“ segir Steinunn að lokum.
Sjá frétt mbl.is: Vill gjaldþrotaskipti á Glitni