„Að okkar mati er aðhald peningastefnunnar of mikið um þessar mundir hvort sem miðað er við verðbólguhorfur, verðbólguvæntingar eða stöðu hagsveiflunnar,“ segir í markaðspunktum Greiningardeildar Arion banka, sem jafnframt spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans kjósi að lækka stýrivexti um 50 punkta á næsta vaxtaákvörðunarfundi sem haldinn verður miðvikudaginn 10. desember.
Frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi hefur orðið sú breyting að ársverðbólgan hefur lækkað úr 1,9% í 1,0% og hafa því virkir raunstýrivextir hækkað að sama skapi. Virkir raunstýrivextir eru nú um 4% og því umtalsvert hærri en við síðustu vaxtaákvörðun. „Hæfilegt raunvaxtastig er að okkar mati nær 3% miðað við núverandi horfur í stað 4% og eru því rök fyrir lækkun nafnvaxta til skemmri tíma litið,“ segir í markaðspunktunum.
Helstu rök fyrir stýrivaxtalækkun þykja í fyrsta lagi þau að raunvaxtastig er töluvert yfir því sem ákjósanlegt er að mati Greiningardeildarinnar auk þess sem ársverðbólga hefur ekki einungis lækkað frá síðustu vaxtaákvörðun heldur hafa verðbólguhorfur einnig lækkað verulega. Því hefur aðhald peningastefnunnar aukist umtalsvert frá síðasta fundi peningastefnunefndar. Jafnframt hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði lækkað umtalsvert síðastliðinn mánuð og telur Greiningardeildin að töluverður árangur hafi náðst við að bæta kjölfestu verðbólguvæntinga undanfarið.
Í öðru lagi eru þá hagvaxtartölur á fyrstu níu mánuðum ársins mun slakari en spár gerðu ráð fyrir og sá kröftugi vöxtur innlendrar eftirspurnar sem peningastefnunefnd hefur haft áhyggjur af virðist því ekki vera að raungerast.