Smádindill hefur sama rétt

Heiðar Már Guðjónsson.
Heiðar Már Guðjónsson. mbl.is/RAX

„Það eiga allir að vera jafnir fyrir lögunum og þó hún afgreiði mig sem einhvern smádindil hef ég sama rétt og hákarlinn sem er hinum megin,“ segir Heiðar Már Guðjóns­son, sem hefur farið fram á gjaldþrotaskipti á þrotabúi Glitnis, og vísar til ummæla Stein­unnar Guðbjartsdóttur, formanns slita­stjórn­arinnar, þar sem hún benti á að Heiðar væri nýr kröfuhafi sem ætti lága fjárkröfu á hendur búinu.

Heiðar Már er eig­andi félagsins Úrsus ehf. sem á al­menna kröfu er nemur rúmri 3,1 milljón króna í bú Glitn­is hf. Hann hef­ur lagt inn gjaldþrota­skipta­beiðni á hend­ur fé­lag­inu og telur sig ekki eiga að þurfa bíða þess Glitn­ir taki þátt í ferli til af­náms gjald­eyr­is­hafta, sem leiði svo til gerðar nauðasamn­ings, enda sé ekki vissa fyr­ir því hvort og hvenær slíkt gangi eft­ir. 

Gjaldþrotaskiptin „ekkert frekar“ markmiðið

Stein­unn sagði í gær í samtali við mbl.is að það skipti máli að Heiðar Már væri nýr kröfu­hafi, sem keypt hefði kröf­ur fyr­ir um tveim­ur mánuðum síðan auk þess sem krafa hans væri einungis um 0,001% af heild­ar­fjár­hæð krafna. 

Aðspurður hvort hann hafi keypt kröfurnar með það að markmiði að fara fram á gjaldþrotaskipti segir hann: „Ekkert frekar.“ „Ég er búinn að vera reyna að kaupa kröfur um lengri tíma en ég er svosem búinn að tala fyrir gjaldþrotaleiðinni í ennþá lengri tíma. Mér finnst þetta bara eðlileg krafa þegar þetta hefur tekið sex ár og Glitnir er stiginn fram með viðskiptaáætlun sem gildir fram til ársins 2019,“ segir hann. „Ég get ekki hugsað til þess að bú bankanna séu óuppgerð í 11 ár líkt og áætlanir slitastjórnarinnar gera ráð fyrir,“ segir Heiðar.

Þægilegur misskilningur hjá Steinunni

„Markmiðið var bara að kynna mér þetta og fá aðgang að gögnum og sjá hvað menn ætluðu sér í þessu. Ég er með fjárfestingar á Íslandi og það skiptir mig miklu máli hvort hér eigi að setja allt á hliðina eða ekki. Dómstólarnir eru hæfastir til að taka á þessu máli og mér finnst það ævintýralegt að Steinunn sé ekki að átta sig á hver skipaði hana í starfið og fyrir hvern hún er að vinna,“ segir hann.

Þá segir hann Steinunni vera komna í starf sem borgi henni margfalt það sem hún áður hefur þénað. „Hennar hlutverk er að greiða til hluthafa. Ekki vera í eignastýringu, en það er auðvitað þægilegt fyrir hana að misskilja þetta,“ segir Heiðar og vísar til slita Bank of Credit and Commerce International bankans sem tók fleiri ár í framkvæmd. „Þar tók skiptastjórinn 17 ár í að klára búið og tók hátt í fjórðung af eignunum í þóknanir fyrir sig og sína,“ segir hann. Aðspurður hvort hann telji líkur á því að slíkt gerist með þrotabú Glitnis segir hann málið nú þegar vera orðið að sirkus þegar formaður slitastjórnarinnar sé búinn að endurskilgreina hlutverk sitt. „Hennar hlutverk er að slíta búinu og greiða til kröfuhafa. Það er ekki að vera í eignastýringu og borga sér og samstarfsfólki 5.000 milljónir á ári,“ segir hann. „Þess vegna fór ég með þetta fyrir héraðsdóm,“ segir Heiðar.

Slita­stjórn Glitn­is hef­ur nú fram til 11. janú­ar að koma með sína hlið á mál­inu fyr­ir dóm­stólum.

Frétt mbl.is: Segist ekki skilja ummæli Heiðars

Frétt mbl.is: Vill gjaldþrotaskipti á Glitni

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður sitastjórnar Glitnis.
Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður sitastjórnar Glitnis. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Glitnir
Glitnir Friðrik Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK