Gerviþarfir ráða kaupunum

Athygli vakti þegar fólk beið í röð eftir gylltum Omaggio …
Athygli vakti þegar fólk beið í röð eftir gylltum Omaggio vasa.

„Maður veltir fyrir sér hvers vegna fólk heldur að fjöldaframleiddur hlutur geti skipt miklu máli fyrir einkalíf þess og sjálfsmynd. Fólk hleypur á eftir varningi til þess að halda í við einhvern lífsstíl,“ segir Ragna Bene­dikta Garðars­dótt­ir, dós­ent í sál­fræði við Há­skóla Íslands, um kauphegðun Íslendinga, sem stundum þykir sæta tíðindum.

Aðspurð hvort neyslumynstrið sé aftur tekið að breytast eftir lægð á síðustu árum segir Ragna ýmislegt benda til þess „en það er kannski of snemmt að segja og þetta gæti verið bóla og fólk til dæmis verið bjartsýnt vegna leiðréttingarinnar“, segir hún. „Við erum nú ekki alveg komin í sama ruglið og við vorum í rétt fyrir hrun en við skulum sjá til hvernig þetta verður um næstu jól,“ segir hún. Ragna hefur rannsakað neyslu­hegðun Íslend­inga og segir ekkert vera rangt við að kaupa dýra hluti annað slagið, svo lengi sem fjárhagur leyfir. „En eins og þetta var orðið fyrir hrun lifði fólk einhverjum lífsstíl sem það hafði ekki efni á. Það var að taka lán til að kaupa dýra hluti til þess að ganga í augun á fólki sem því var í raun sama um,“ segir hún.

Fegurðin þarf ekki að vera eins

Það vakti athygli á dögunum þegar hópur fólks beið eftir því að kaupa gylltan Omaggio vasa klukkan sex að morgni í verslun Módern. Vasinn seldist upp á mettíma. „Þetta eru hlutir sem framleiddir eru í fleiri þúsundum, eða jafnvel milljónum eintaka, en fólk virðist telja að það segi eitthvað um það sérstaklega að eiga þennan hlut,“ segir hún. „Auðvitað er gott fyrir sálina að hafa fínt í kringum sig, fegurð skiptir í alvöru máli, en það þarf ekki að vera sú fegurð sem okkur er seld á hverjum tíma sem eitthvert normatíft útlit,“ segir hún.

Aðspurð hvort þetta sé séríslensk hegðun segir hún svo ekki vera og telur samskonar hegðun oft myndast í öðrum smærri samfélögum. „Þar sem ég þekki til í Bandaríkjunum eru til dæmis tískubylgjur í gangi um hvaða sódavatn eigi að drekka á hverjum tíma. En vegna smæðarinnar hér á landi tökum við eftir þessu sem landlægu fyrirbrigði á meðan þetta er kannski frekar hverfistengt á öðrum stöðum,“ segir hún. „Ástæðan fyrir því að sömu vörurnar fara inn á öll heimili er einfaldlega klók markaðssetning en hluturinn mun aldrei geta sagt neitt til um manneskjuna sjálfa, nema bara ef til vill að hún falli fyrir snjallri markaðssetningu,“ segir Ragna.

Nýta þarf hlutina lengur

Hún segir Íslendinga, og reyndar vestrænar þjóðir almennt, nokkuð óskynsama í neysluvenjum. Gerviþarfir ráði för frekar en skynsemi. „Við kaupum allt of mikið af alls konar neysluvarningi og umhverfið borgar fyrir það á hnettinum öllum,“ segir hún og telur að breyta þurfi mynstrinu. Það er ekki endilega neytendunum sjálfum að kenna, heldur þeim strúktúr og stofnunum sem við höfum raðað í kringum okkur í neyslusamfélögum. „Sumir eru að reyna að verða umhverfisvænni og kaupa mikið af einhverju sem lítur út fyrir að vera umhverfisvænt, með laufblaði eða tré í forgrunni, en þar er líka hægt að blekkja neytendur með svokölluðum grænþvotti,“ segir hún.

Það sem skynsamlegast er í þessum efnum að sögn Rögnu er að nýta hlutina lengur, kaupa minna og rugla ekki saman skammtímaánægju og langtímahamingju. „Þú getur verið voðalega ánægður með nýja vasann í smástund en síðan er eitthvað annað komið í tísku í næstu viku,“ segir hún. Aðspurð hvort hún telji Íslendinga hafa lært eitthvað af hruninu segir hún hluta þjóðarinnar ekkert hafa þurft að læra, sumir hafi breytt sinni hegðun en aðrir hafi ekkert lært. „Það er til fullt af góðum og skynsömum Íslendingum en það eru alltaf hinir sem komast í fréttirnar,“ segir hún glettin.

Ragna Benedikta Garðarsdóttir
Ragna Benedikta Garðarsdóttir
Ragna telur gerviþarfir oft ráða kaupum Íslendinga.
Ragna telur gerviþarfir oft ráða kaupum Íslendinga. mbl.is/Arnaldur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK