Á 3. ársfjórðungi 2014 var afkoma hins opinbera jákvæð um 0,3 milljarða króna, eða 0,1% af landsframleiðslu ársfjórðungsins. Heildartekjur hins opinbera jukust um 4,9% milli 3. ársfjórðungs 2013 og 2014. Á móti jukust heildarútgjöldin um 5,0%. Þetta kemur fram í frétt Hagstofu Íslands.
Tekjuafkoma hins opinbera reyndist jákvæð um 15,5 milljarða króna fyrstu níu mánuði ársins og nam tekjuafgangurinn 1,1% af landsframleiðslu tímabilsins. Á tímabilinu jukust tekjur um 9,7% en útgjöld um 4,2%. Þetta er mun betri afkoma en sama tímabil árið 2013 þegar það var tekjuhalli upp á 16,8 milljarða króna. Umskiptin skýrast aðallega af 19,6 milljarða arðgreiðslu Landsbankans til stærsta eiganda síns, ríkissjóðs.