Lee Buchheit, einn helsti ráðgjafi stjórnvalda við vinnu um losun fjármagnshafta, segist telja raunhæft að hægt verði að kynna endanlega áætlun um afnám hafta „snemma á næsta ári.“ Fullmótuðum tillögum var skilað til stýrinefndar um losun hafta í síðustu viku.
Í samtali við mbl.is fyrir fund slitastjórna og fulltrúa þeirra með ráðgjöfum stjórnvalda, sem hófst klukkan 2 á Grand Hóteli, sagði Buchheit að fundurinn væri haldinn að beiðni slitastjórna föllnu bankanna. Verið sé að veita þeim og fulltrúum kröfuhafa tækifæri til að koma á framfæri sínum sjónarmiðum í tengslum við losun hafta. Slitabúin séu hins vegar ekki einu aðilarnir á Íslandi sem hafi áhuga á því að vera hleypt út fyrir höft.
Til stendur að eiga fleiri sambærilega fundi með öðrum hagsmunaðilum sem kunna einnig að hafa skoðanir á því hvernig áætlun um afnám hafta eigi að líta út og hlusta á athugasemdir þeirra. Þar megi meðal annars nefna lífeyrissjóðina, að sögn Buchheit.
Aðspurður vildi Buchheit ekkert tjá sig um þær tillögur ráðgjafa stjórnvalda að lagður verði útgönguskattur á allar greiðslur út fyrir fjármagnshöft. Slíkt útgöngugjald næði þá einnig til mögulegra greiðslna slitabúanna, hvort sem þær yrðu í erlendum gjaldeyri eða krónum, til erlendra kröfuhafa. Morgunblaðið hefur áður greint frá því að gert hafi verið ráð fyrir því að gjaldið verði 35%.
Auk Buchheit mættu á fundinn fyrir hönd stjórnvalda framkvæmdastjórn um losun hafta. Sá hópur er skipaður Glenn Kim, formaður hópsins og fjármálaráðgjafi, Benedikt Gíslason, ráðgjafi fjármálaráðherra, Freyr Hermannsson, forstöðumaður fjárstýringarsviðs Seðlabanka Íslands, og Eiríkur Svavarsson, hæstaréttarlögmaður. Jafnframt mættu fulltrúar frá Seðlabankanum, forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu á fundinn.