Stórfyrirtækin Disney og Skype eru talin vera á meðal þeirra sem nýttu sér skattaglufur með hjálp stjórnvalda í Lúxemborg og spöruðu sér þannig himinháar fjárhæðir sem ella hefðu farið í skattgreiðslur.
Þetta kemur fram í nýjum gögnum sem lekið var til fjölmiðla í dag af sömu blaðamönnum og greindu frá umfangsmiklum skattsvikum í smáríkinu í nóvember sl. Þá fjallaði alþjóðlegt félag rannsóknarblaðamanna um skattasamkomulög sem þarlend stjórnvöld gerðu við hundruð stórfyrirtækja á borð við Pepsi, Ikea, Deautche Bank og FedEx. Í nýju gögnunum eru 35 fyrirtæki til viðbótar nafngreind. Fyrir liggur að í sumum tilvikum greiddu fyrirtækin um 1 prósent skatt af þeim hagnaði sem gefinn var upp í Lúxemborg.
Talið er að skattaundankoma Disney hafi falist í því að stofna banka í Lúxemborg sem bauð öðrum félögum samstæðunnar lán á háum vöxtum, en þar má t.d. nefna dótturfélag þeirra í Frakklandi. Þetta var gert til þess að hámarka frádráttarbærni vaxtagjalda af þeim lánum sem félögin fengu en þannig var hægt að spara gríðarlegar fjárhæðir.
Í svari við fyrirspurn BBC sagði Disney skýrsluna vera misvísandi af ásettu ráði og sagði fyrirtækið hafa að meðaltali greitt 34 prósent skatt á síðastliðnum fimm árum.
Þá sagði Microsoft, sem er eigandi Skype, að fyrirtækið gæti einungis svarað fyrir skattamál Skype eftir október 2011, þegar félagið var yfirtekið. Þá sögðust forsvarsmenn fyrirtækisins fara að lögum og reglugerðum í öllum löndum þar sem starfsemin er rekin.
Rannsakendur á vegum framkvæmdastjórnar Evrópuráðsins er nú að rannsaka skattamál nokkurra fyrirtækja og segir talsmaður framkvæmdastjórnarinnar Jean-Claude Juncker vera staðfastan í baráttunni gegn skattsvikum.
Juncker er nýkjörinn forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og var áður forsætisráðherra Lúxemborgar í nítján ár. Er hann því maðurinn sem var við stjórnvöllinn þegar meirihluti fyrrnefndra gjörninga voru gerðir. Hann hefur þó neitað því að hafa átt nokkuð með þá að gera.
BBC greinir frá þessu.
Frétt mbl.is: Milljarðar sparaðir í skattaskjólum